Sport

Kári féll úr leik í Mexíkó gegn sterkum mótherja

Kári Gunnarsson.
Kári Gunnarsson. Vísir/valli
Kári Gunnarsson, badmintonkappi úr TBR, lauk leik í dag á Alþjóðlegu móti í Cancun í Mexíkó eftir að hafa fallið úr leik gegn Ygor Coelho Oliveira.

Hann mætti heimamanninum Andres Ramirez í fyrsta leik í gær og vann hann auðveldlega bæði settin, 21-7 og 21-10. Bókaði hann með sigrinum sér sæti í næstu umferð þar sem andstæðingurinn var heldur erfiðari.

Í annarri umferð mætti Kári hinum brasilíska Ygor en honum er raðað númer sjö inn í einliðaleik karla og er númer 66 á heimslista.

Kári átti mjög góðan leik á móti Ygor og náði að komast í oddalotu eftir að hafa borið sigur úr býtum í annarri lotu 21-16. Honum tókst hinsvegar ekki að hafa betur í þriðju lotu og fór sá brasilíski með sigur af hólmi í þeirri lotu 15-21 og samtals 2-1.

Kári sem er í 326. sæti á heimslistanum keppir næst á móti í Kólumbíu sem hefst 23. september.

Hann hefur undanfarnar vikur verið við æfingar í Mexíkó en hann hefur æft með þeim Ernesto Velazquez og Monche Garrido.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×