Fótbolti

Rosenborg náði í stig í Frakklandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hólmar Örn svekktur eftir að St. Étienne komst yfir í byrjun leiks.
Hólmar Örn svekktur eftir að St. Étienne komst yfir í byrjun leiks. vísir/afp
Norska úrvalsdeildarliðið Rosenborg var ekki langt frá því að vinna magnaðan útisigur á St. Étienne í Frakklandi í kvöld, en liðin skildu jöfn, 2-2. Hólmar Örn Eyjólfsson var í byrjunarliði Rosenborg og stóð sig mjög vel.

Matthías Vilhjálmsson sat aftur á móti allan tímann á varamannabekk norska liðsins, en Hafnfirðingurinn hefur komið frábærlega inn í Þrándheimsliðið eftir komu sína frá Start.

Heimamenn komust yfir strax á fjórðu mínútu, 1-0, en Tobias Mikkelsen jafnaði metin á 16. mínútu og staðan 1-1 í hálfleik.

Markalaust var í seinni hálfleik fram á 79. mínútu en þá skoraði Jonas Svensson fyrir gestina og kom þeim í 2-1.

Frakkarnir sóttu stíft eftir mark gestanna og uppskáru jöfnunarmark á 87. mínútu úr vítaspyrnu. Noal Roux bjargaði stigi fyrir heimamenn, 2-2.

Rosenborg spilaði virkilega vel í kvöld og hefði með smá heppni getað innbyrt sterkan útisigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×