Körfubolti

Logi: Erum búnir að sýna að við eigum heima hérna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Logi Gunnarsson fagnar stigum í leiknum í dag.
Logi Gunnarsson fagnar stigum í leiknum í dag. vísir/valli
Logi Gunnarsson átti stórleik fyrir Ísland í dag þegar liðið tapaði með 29 stiga mun gegn Serbíu, 93-64, í þriðja leik liðsins á EM 2015 í körfubolta.

Logi skoraði 18 stig og tók þrjú fráköst á 24 mínútum, en enginn annar í liðinu skoraði fleiri en níu stig.

Ísland var í góðum málum í hálfleik. Liðið spilaði sterka vörn en hefði mátt hitta betur úr opnum skotum.

„Við vorum frábærir í fyrri hálfleik. Við spiluðum okkar vörn og þeir töpuðu mörgum boltum í fyrri hálfleik. Ég held þeir hafi tapað 15 boltum í fyrri hálfleik og það gera ekki mörg lið við Serbana,“ sagði Logi við Vísi eftir leikinn.

„Ég er bara stoltur af okkur og hvernig við spiluðum í fyrri hálfleik. Seinni hálfleikurinn var ekki jafn góður en þeir eru bara rosalega góðir, stórir og sterkir.“

„Við hættum aldrei og börðumst og börðumst. Við fengum líka fullt af fínum skotum. Við verðum að skjóta alveg rosalega vel ef við eigum að geta unnið eitthvað af þessum liðum. Þeir skutu held ég 80 prósent í teignum í dag og það er ekki hægt að vinna lið sem spilar þannig.“

Craig Pedersen, þjálfari Íslands, vildi vera yfir í hálfleik miðað við hvernig staðan var. Það verður þó líka að benda á styrk serbneska liðsins.

„Þjálfarinn sagði við okkur í hálfleik að Serbar ættu að vera heppnir að við værum ekki yfir. Við fengum þá til að tapa mörgum boltum og við hefðum verið yfir hefðum við verið að hitta,“ sagði Logi.

„En það er alltaf hægt að segja þetta. Þeir eru gott lið og góðir í vörn. En við höldum bara áfram. Við erum búnir að sýna það í fyrstu leikjunum að við eigum heima hérna. Þó þetta sé stórt tap er það ekkert til að hafa áhyggjur af.“

Liðið er nú búið að spila þrjá leiki á fjórum dögum og á eftir leik á morgun og hinn.

„Ég finn fyrir því að spila svona marga leiki. Maður hefur ekki spilað svona þétt áður á ferlinum og svo bætast núna við tveir leikir í röð. Auðvitað finnur maður fyrir þessu en núna hugsar maður bara vel um sig,“ sagði Logi.

„Aðalatriðið er að njóta þess að vera hérna. Við njótum hverrar mínútu og gefumst aldrei upp. Þó við vorum mikið undir köstuðum við okkur á alla bolta,“ sagði Logi og hrósaði háværum stuðningsmönnum Íslands í stúkunni.

„Ég er spurður á öllum blaðamannafundum út í þennan stuðning. Þjóðverjar spyrja mig til dæmis hvaðan þetta fólk kemur og af hverju er það enn þá að klappa. Ég er montinn af þeim,“ sagði Logi Gunnarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×