Skoðun

Kjarasamningar og stjórnvöld

þórunn egilsdóttir skrifar
Mikill órói var á vinnumarkaði síðastliðið vor, þar sem hart var tekist á í viðræðum um kjarasamninga. Tekist var á um hve háa upphæð hver og einn ætti að fá í launaumslagið. Eins og oftast áður var ekki unnt að klára samninga einungis með því að einblína á launa­umslag hvers og eins, heldur þurftu stjórnvöld einnig að koma að borðinu með ýmis framfaramál fyrir okkar þjóðfélag.

Yfirlýsing stjórnvalda frá 28. maí varð til þess að púsluspilið gekk upp og því lykillinn að því að langtímakjarasamningar tókust. Yfirlýsingin er því grundvallarplagg sem unnið verður eftir. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna eru ellefu liðir sem lúta að ýmsum sviðum skatta-, velferðar- og húsnæðismála sem og úrbótum á sviði hagstjórnar og opinberra fjármála. Þar má nefna að með aðgerðunum mun lækkun á tekjuskatti einstaklinga nema allt að 16 milljörðum króna á kjörtímabilinu. Það samsvarar tæpum 13% af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga miðað við áætlun fjárlaga 2015. Ríkisstjórnin skuldbindur sig einnig til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Þannig verði stuðlað að fjölgun ódýrra og hagkvæmra íbúða með það að markmiði að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma og ráðist í átak um byggingu 2.300 félagslegra íbúða á tímabilinu 2016-19.

Einnig verður stuðlað að lækkun byggingarkostnaðar, meðal annars með endurskoðun byggingarreglugerðar og gjaldtöku sveitarfélaga. Húsnæðisbætur verða hækkaðar til að styðja við almennan leigumarkað og lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og skattlagningu breytt í þeim tilgangi að lækka leiguverð og auka framboð á leigumarkaði. Þá verður komið sérstaklega til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, m.a. með því að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignarsparnað til þess. Fleiri aðgerðir, s.s. vegna lækkunar á kostnaði sjúklinga og aukinna framlaga til starfsmenntunar, eru í yfirlýsingunni en hana má finna á vef forsætisráðuneytisins.

Margar þessara aðgerða krefjast nokkurrar vinnu á Alþingi vegna lagabreytinga. Við framsóknarmenn munum greiða fyrir framgangi þeirra.




Skoðun

Sjá meira


×