Fótbolti

Íslendingaliðin í góðum málum í Evrópudeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar og félagar eru svo gott sem komnir áfram.
Ragnar og félagar eru svo gott sem komnir áfram. vísir/afp
Ragnar Sigurðsson og félagar hans í rússneska liðinu Krasnodar eru í góðri stöðu eftir fyrri leikinn gegn HJK frá Finnlandi í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Ragnar spilaði allan leikinn fyrir Krasnodar sem vann 5-1 sigur á finnska liðinu í dag og er því svo gott sem komið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Krasnodar komst í 2-0 eftir 10 mínútna leik en Finnarnir minnkuðu muninn í 2-1 á 18. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

En Krasnodar-menn fóru aftur í gang í seinni hálfleik og tryggðu sér stórsigur með þremur mörkum á sjö mínútna kafla.

Seinni leikurinn fer fram í Finnlandi eftir viku.

Annað Íslendingalið, Rosenborg frá Noregi, er einnig í toppmálum eftir 0-3 sigur á Steaua Búkarest á útivelli.

Tobias Mikkelsen kom Rosenborg yfir á 61. mínútu og aðeins sex mínútum síðar bætti Andre Helland við marki.

Það var svo Mike Jensen sem gulltryggði sigur Rosenborg með marki á þriðju mínútu í uppbótartíma.

Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan leikinn í vörn Rosenborg en Matthías Vilhjálmsson kom inn á sem varamaður undir lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×