Erlent

UNICEF: Nepölsk börn lýsa ótta og óöryggi á skjálftasvæðinu

Atli Ísleifsson skrifar
Börn sem starfsmenn UNICEF ræddu við segjast kvíðin yfir því hvaða áhrif skortur á hreinu vatni, hreinlætisaðstöðu og læknisþjónustu hafi á heilsu þeirra og fjölskyldna þeirra og eru áhyggjufull yfir því hvaða áhrif lokanir skóla í kjölfar skjálftans hafa á framtíð þeirra.
Börn sem starfsmenn UNICEF ræddu við segjast kvíðin yfir því hvaða áhrif skortur á hreinu vatni, hreinlætisaðstöðu og læknisþjónustu hafi á heilsu þeirra og fjölskyldna þeirra og eru áhyggjufull yfir því hvaða áhrif lokanir skóla í kjölfar skjálftans hafa á framtíð þeirra. Mynd/Unicef
Mörg börn á jarðskjálftasvæðinu í Nepal upplifa ótta og óöryggi yfir að þurfa að búa í tjöldum og yfirfullum neyðarskýlum.

Starfsmenn UNICEF og samstarfsaðila hafa rætt við nærri tvö þúsund börn á skjálftasvæðinu sem lifðu af jarðskjálftana í Nepal í vor. Segjast börnin kvíðin yfir því hvaða áhrif skortur á hreinu vatni, hreinlætisaðstöðu og læknisþjónustu hafi á heilsu þeirra og fjölskyldna þeirra og eru áhyggjufull yfir því hvaða áhrif lokanir skóla í kjölfar skjálftans hafa á framtíð þeirra.

Í tilkynningu frá UNICEF segir að börnin á skjálftasvæðinu hafi komið með nákvæmar og praktískar ráðleggingar varðandi uppbyggingarstarfið og meðal annars sagst vilja vera betur undirbúin fyrir jarðskjálfta í framtíðinni.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir Nepal er enn í fullum gangi og þegar hafa þúsundir landsmanna lagt henni lið. Fjölmargir hafa auk þess skráð sig í áheitahlaup fyrir UNICEF á Íslandi í Reykjavíkurmaraþoninu í næstu viku.

„Við erum ákaflega þakklát öllum þeim sem ætla að hlaupa fyrir UNICEF og öllum sem þegar hafa heitið á hlauparana. Við hvetjum að sjálfsögðu sem flesta til að bætast í hópinn,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Börn berskjölduð fyrir misnotkun

Í tilkynningunni segir að samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eigi börn rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er þau varðar og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.

„Skýrslan sem gefin var út í kjölfar samráðsins við börnin nefnist After the earthquake: Nepal´s children speak out. „Börnin hafa veitt okkur ómetanlega innsýn – nokkuð sem fullorðnir gætu ekki hafa komið auga á,“ segir yfirmaður hjá UNICEF á svæðinu, Dr. Rownak Khan.

UNICEF og samtökin fjögur sem stóðu að verkefninu undirstrika þörfina á því að gera samfélög í Nepal betur í stakk búin til að mæta meiriháttar áföllum sem þessum og vara einnig við því að án hjálpar sé heilsu barna, velferð og öryggi verulega ógnað nú þegar monsún-rigningarnar standa yfir.

„Rigningarnar gera allt hjálparstarfið erfiðara. Börn á svæðinu hafa gengið í gegnum einstaklega ógnvekjandi reynslu sem orsakar mikla streitu hjá þeim. Þessi reynsla hefur kippt fótunum undan tilveru þeirra og haft veruleg áhrif á skólagöngu þeirra. Börnin þurfa margvíslega aðstoð og einnig sálrænan stuðning til að jafna sig. Veita þarf hjálp hratt og örugglega,“ segir Bergsteinn Jónsson.

Tugþúsundir barna á jarðskjálftasvæðinu í Nepal búa við óviðunandi aðstæður í neyðarskýlum. Umfangsmikil hjálp hefur þegar verið veitt en þörfin er enn gríðarleg,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×