Íslenski boltinn

Stjórnin sigldi málinu farsællega í höfn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þorsteinn Már meiddist í leiknum gegn Rosenborg.
Þorsteinn Már meiddist í leiknum gegn Rosenborg. Vísir/Valli
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, er vitanlega ánægður með að Þorsteinn Már Ragnarsson hafi ákveðið að halda kyrru fyrir í herbúðum félagsins til loka tímabilsins.

Þetta var tilkynnt á heimasíðu KR í dag en samningur Þorsteins Más rennur út í lok leiktíðar. „Ég er auðvitað mjög ánægður, það er ekki spurning,“ sagði Bjarni. „Stjórn knattspyrnudeildar tók mjög vel á þessu máli og sigldi því farsællega í höfn.“

Þorsteinn Már mátti ákveða sjálfur hvort hann vildi vera áfram í KR að sögn Kristins Kjærnested, formanni knattspyrnudeildar, og var búinn að ræða við bæði Breiðablik og Stjörnunar. Að sögn Blika var Þorsteinn Már mjög spenntur fyrir Kópavogsliðinu.

Sóknarmaðurinn missti af leik FH og KR í gær vegna meiðsla sem hann hlaut í leik KR gegn Rosenborg á fimmtudagskvöld.

„Útlitið er ekki alveg nógu gott og hann er tæpur fyrir leikinn [gegn Rosenborg ytra] á fimmtudag. Hann er byrjaður að skokka aðeins og við munum gera allt sem við getum til að koma honum í stand.“

Þorsteinn Már fer út með KR til Noregs en í öllu falli reiknar Bjarni með því að hann verði klár í slaginn þegar KR mætir Breiðabliki eftir viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×