Íslenski boltinn

Síðasti heimaleikur Vals á náttúrúlegu grasi á laugardag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Síðasti grasleikurinn á Hlíðarenda verður á laugardaginn.
Síðasti grasleikurinn á Hlíðarenda verður á laugardaginn. Vísir/Vilhelm
Valur mun spila sinn síðasta heimaleik á grasi er Valsmenn taka á móti Víkingum í Pepsi-deild karla klukkan 16.30 á laugardaginn.

Valur hefur ákveðið að skipta grasvellinum út fyrir gervigras og munu framkvæmdir hefjast strax á mánudag.

„Grasið verður rifið upp strax þá og byrjað að hreyfa við undirlaginu og færa hitalagnir aðeins ofar,“ segir Alexander Örn Júlíusson, vallarstjóri Vals, í samtali við Vísi.

„Síðasti heimaleikur okkar í deildinni er gegn Stjörnunni þann 3. október og er áætlað að opna nýja völlinn fyrir hann,“ sagði hann en fram að því mun Valur spila heimaleiki sína á Laugardalsvelli.

Hann segir að þetta sé heilmikið verk og að ákvörðunin hafi verið stór fyrir félagið.

„Þetta er í raun nýr völlur sem er verið að rífa upp og það er auðvitað pínu sorglegt líka. Klúbburinn er stoltur af þessum flotta velli,“ segir Alexander. „En ef það er litið til hagsmuna félagsins þá er þetta hagkvæmasta lausnin, sérstaklega þar sem aðstaðan yfir vetraramánuðina er svona slök.“

Valur hefur verið á góðri siglingu í Pepsi-deild karla og er í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig, tveimur á eftir toppliði KR.

Valur varð síðast Íslandsmeistari árið 2007 en þá lék liðið heimaleiki sína á Laugardalsvelli vegna framkvæmda við nýjan völl við Hlíðarenda, sem nú er verið að breyta á ný.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×