Sport

Fyrsta konan til að þjálfa í NFL-deildinni

Jen Welter er klár í slaginn.
Jen Welter er klár í slaginn.
Konur halda áfram að brjóta niður múra í NFL-deildinni í Bandaríkjunum.

Í apríl síðastliðnum réð deildin Söruh Thomas sem dómara í deildinni. Hún verður fyrsta konan til að dæma NFL-leiki.

Nú hefur lið Arizona Cardinals ákveðið að ráða konu í þjálfarateymi sitt. Sú heitir Jen Welter og er ekki óvön því að brjóta niður múra.

Hún hefur verið ráðin til þess að þjálfa hluta af varnarmönnum liðsins. Hún kemur inn til reynslu. Welter spilaði í fyrra einn leik sem hlaupari í innanhúsruðningi karla. Varð hún fyrsta konan til þess að gera það.

Hún þekkir leikinn vel og er þess utan menntaður sálfræðingur.

Þjálfari Cardinals, Bruce Arians, segir að það skipti engu máli hver þjálfi leikmenn svo lengi sem viðkomandi viti hvað hann sé að gera.

„Ef leikmenn telja viðkomandi geta gert sig betri þá væri þeim sama ef það væri ofurhetja í búningi að þjálfa þá. Ég held að hún eigi eftir að nýta þetta tækifæri og sanna sig," sagði Arians.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×