Fótbolti

Capello hættur hjá Rússlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Rússneska knattspyrnusambandið og Fabio Capello landsliðsþjálfari hafa komist að samkomulagi að sá síðarnefndi hætti störfum.

Þetta hefur legið í loftinu í nokkurn tíma en Rússland er í þriðja sæti síns riðils í undankeppni EM 2016 með átta stig að loknum sex leikjum. Liðið hefur til að mynda tapað báðum leikjum sínum gegn Austurríki í riðlinum.

Liðið er í 28. sæti styrkleikalista FIFA, fimm sætum fyrir neðan Ísland, en Rússarnir eru nú að byggja upp lið fyrir HM sem haldið verður á heimavelli eftir þrjú ár. Ekki er vitað hver fær nú það verkefni í hendurnar en Leonid Slutski, þjálfari CSKA Moskvu, hefur verið orðaður við starfið.

Capello er 69 ára Ítali sem er hvað þekktastur fyrir að hafa þjálfað AC Milan, Real Madrid, Roma, Juventus og enska landsliðið. Hann tók við rússneska liðinu árið 2012 og kom liðinu á HM í Brasilíu, þar sem liðið féll úr leik í riðlakeppninni. Samningur hans náði fram yfir HM 2018.

Samkvæmt fréttum frá Rússlandi fær Capello fimmtán milljónir evra, jafnvirði 2,2 milljarða króna, í starfslokagreiðslu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×