Fótbolti

Hólmbert má spila með KR á morgun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson er klár í slaginn.
Hólmbert Aron Friðjónsson er klár í slaginn. vísir/daníel
Hólmbert Aron Friðjónsson má að öllum líkindum spila með KR gegn Rosenborg á morgun þegar liðin mætast í fyrri viðureign þeirra í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Félagaskiptaglugginn á Íslandi var opnaður í dag og er hann kominn með leikheimild hér heima, en KR-ingar eru að ganga frá öllum pappírum svo hann megi spila annað kvöld.

Talið var að fyrsti leikur hans yrði stórleikurinn gegn FH í Kaplakrika á sunnudagskvöldið þar sem efstu lið Pepsi-deildarinnar mætast.

„Samkvæmt öllu því sem við erum að fá frá KSÍ og frá Skotlandi er hann klár fyrir morgundaginn. Hann má vera í hópnum,“ segir Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, við Vísi.

Hólmbert, sem var kjörinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar þegar hann fór á kostum með Fram, samdi við KR 1. júlí.

Hann kemur til KR frá Celtic, en Hólmbert var síðast á láni hjá Bröndby í Danmörku.

Á vefsíðu UEFA er Hólmbert Aron skráður í leikmannahópinn en það ætti að vera mikill liðsstyrkur fyrir KR að geta stillt upp þessum stóra og stæðilega framherja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×