Fótbolti

Gunnar Nielsen varði víti og Stjarnan slapp með 2-0 tap

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Nielsen var frábær í kvöld.
Gunnar Nielsen var frábær í kvöld. Vísir/Stefán
Stjarnan tapaði 2-0 fyrir skosku meisturunum í Celtic í kvöld þegar liðin mættust á Celtic Park í kvöld í fyrri leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Gunnar Nielsen, færeyski markvörður Stjörnuliðsins, átti frábæran leik í markinu og varði margoft frá leikmönnum Celtic þar á meðal vítaspyrnu tólf mínútum fyrir leikslok.

Stjarnan á því enn smá von um sæti í næstu umferð og munaði þar miklu um að Celtic-liðið náði ekki að bæta við þriðja markinu á lokakafla leiksins.

Celtic náði upp mikilli pressu í fyrri hálfleiknum en það munaði bara einni mínútu að Garðabæjarliðið færi með hreint mark inn í hálfleik.

Dedryck Boyata, sem var að spila sinn fyrsta mótsleik fyrir Celtic, braut ísinn á 44. mínútu með flottum skalla eftir hornspyrnu Stefan Johansen. Markið hafði legið í loftinu en samt svekkjandi fyrir Stjörnuliðið þegar var svona stutt í hálfleikinn.

Stjörnumenn létu þó ekki bugast af þessu mótlæti og komu mjög ákveðnir inn í seinni hálfleikinn.

Jeppe Hansen, Arnar Már Björgvinsson og Hörður Árnason fengu allir tækifæri til að skora á góðum kafla liðsins í upphafi seinni hálfleiks en Celtic slapp með skrekkinn.

Skotarnir nýttu sér þá sofandahátt í vörn Stjörnumanna sem endaði á því að Stefan Johansen fékk sendingu í gegnum miðja vörn Stjörnumanna og skoraði auðveldlega.

Celtic tók í framhaldinu öll völd á vellinum og það stefndi í fleiri skosk mörk enda ennþá meira en hálftími eftir af leiknum.

Stjörnumenn héldu þó velli og fengu ekki á sig fleiri mörk þótt að nokkrum sinnum hafi munað litlu.

Gunnar Nielsen kom til bjargar á 78. mínútu þegar Hörður Árnason fékk dæmt á sig víti fyrir brot á Stefan Johansen. Gunnar Nielsen varði vítið frábærlega frá Leigh Griffiths.

Gunnar Nielsen varði einnig mjög vel frá Stuart Armstrong á lokamínútu venjulegs leiktíma en það var áttunda markvarsla hans í leiknum á Celtic Park í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×