Fótbolti

Bjarni: Meiri pressa á þeim að klára litla liðið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bjarni Guðjónsson var ánægður með sína menn í kvöld.
Bjarni Guðjónsson var ánægður með sína menn í kvöld. vísir/pjetur
„Einvígið er ennþá í jafnvægi og þetta forskot sem þeir hafa verður fljótt að hverfa þegar við verðum komnir 1-0 yfir úti snemma leiks á fimmtudaginn.“

Þetta sagði kokhraustur Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, eftir 1-0 tapið gegn Rosenborg í fyrri leik KR og norska stórliðsins í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

KR-liðið kom nokkuð á óvart með því að pressa Rosenborg stíft í byrjun, en Vesturbæingar lögðust ekki í vörn gegn norska liðinu.

„Við náttúrlega erum bestir þegar við förum framarlega á völlinn. Við lokuðum á þá í föstum leikatriðum og vildum láta þá sparka langt þó Söderlund væri frammi. Við erum með sterka menn í loftinu líka,“ sagði Bjarni.

„Við bökkuðum líka þegar þeir sóttu á okkur því þeir fara með ofboðslega marga menn í sókn þannig það var erfitt við þá að eiga. Það má ekki gleyma því að þetta er eitt besta lið Skandinavíu og á fljúgandi siglingu í deildinni.“

„Ég tel að strákarnir fái mikið sjálfstraust úr þessum leik að finna það, að við vorum ekkert mikið síðri.“

Sigurmarkið kom úr vítaspyrnu:


Bjarni var hrifinn af Rosenborg-liðinu en þar inn á milli eru nokkrir virkilega góðir fótboltamenn.

„Við erum búnir að sjá mikið af þeim og þeir eru mjög góðir. Þeir eru góðir á boltann, yfirvegaðir og vinna vinnuna sína almennilega. Þetta svipar til Rosenborgarliðsins sem var og hét þegar það raðaði inn titlum,“ sagði Bjarni og hrósaði fyrrverandi framherja FH.

„Söderlund er frábær hjá þeim og hefur tekið stórstigum framförum frá því hann spilaði hér. Báðir kantmennirnir hjá þeim eru mjög góðir og sömuleiðis djúpi miðjumaðurinn. Mér sýndist hann haltra stóran hluta leiksins en spilaði samt mjög vel.“

Þjálfarinn er vongóður fyrir seinni leikinn þar sem allt verður undir og það gæti haft slæm áhrif á Rosenborg gangi því illa til að byrja með í leiknum.

„Það skiptir okkur minna máli hvort sé spilað heima eða úti. Aftur á móti verður meiri pressa á þeim í Noregi að standa sig og spila vel gegn litlu liði frá Íslandi. Það er eitthvað sem ættum að geta nýtt okkur,“ sagði Bjarni Guðjónsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×