Fótbolti

Benitez: Ramos fer hvergi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez, nýr knattspyrnustjóri Real Madrid, segir það ljóst að varnarmaðurinn Sergio Ramos verði áfram í herbúðum félagsins.

Manchester United var á höttunum eftir Ramos en leikmannahópur liðsins hefur gengið í gegnum miklar breytingar í sumar. Louis van Gaal vildi fá sterkan varnarmann í hópinn en þarf nú að leita annað ef marka má orð Benitez.

„Það hefur verið mikið skrifað um stöðu Ramos,“ sagði Benitez á blaðamannafundi í Melbourne þar sem Real Madrid er nú í æfingaferð.

„Mitt álit er að hann er fagmaður sem leggur sig ávallt fram. Forseti félagsins er ákveðinn í því að hann verði áfram hjá félaginu.“

„Ég hef rætt mikið við hann í sumar um þær hugmyndir sem hann hefur um sína framtíð. Sergio er mikilvægur hluti af okkar liði. Hann er sigurvegari og við þurfum þannig leikmenn í okkar liði.“


Tengdar fréttir

Ramos ekki í viðræðum við United

Sergio Ramos, miðvörður Real Madrid, neitaði þeim sögusögnum um að hann væri á leið til Manchester United í samtali við sjónvarsstöðuna Cuatro á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×