Fótbolti

Arnór sneri aftur og skoraði í sigri Helsingborgs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór stimplaði sig inn hjá Helsingborgs með marki.
Arnór stimplaði sig inn hjá Helsingborgs með marki. mynd/helsingborgs
Arnór Smárason skoraði þriðja mark Helsingborgs í 3-1 sigri liðsins á AIK á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Þetta var fyrsti leikur Skagamannsins með Helsingborgs síðan 1. nóvember 2014 en hann var lánaður til Torpedo Moskvu seinni hluta síðasta tímabils. Arnór kom inn á sem varamaður í hálfleik en þá var staðan 1-0, Helsingborgs í vil.

Henok Goitom jafnaði metin fyrir AIK á 60. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar kom Jordan Larsson Helsingborgs aftur yfir með sínu öðru marki. Jordan þessi er sonur Henriks Larsson, þjálfara Helsingborgs og fyrrverandi landsliðshetju Svía. Arnór gulltryggði svo sigur Helsingborgs á 89. mínútu.

Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn í miðri vörn Helsingborgs sem er í 7. sæti deildarinnar með 21 stig, sex stigum á eftir AIK sem er í sætinu fyrir ofan.

Haukur Heiðar Hauksson sat allan tímann á varamannabekk AIK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×