Íslenski boltinn

Gary ósáttur við sitt hlutverk: Ánægjuleg reiði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaplakrika skrifar
Gary Martin átti frábæra innkomu.
Gary Martin átti frábæra innkomu. vísir/andri marinó
Gary Martin kom inn á sem varamaður og breytti leik KR og FH.

Gary Martin átti ríkan þátt í því að KR kom sér á topp Pepsi-deildar karla með 3-1 sigri á FH í Kaplakrika.

„Þetta er bara fótbolti og þetta er mitt hlutverk. Ég átti að koma inn á og breyta leiknum og mér tókst að gera það,“ sagði Gary eftir leikinn en hann var sýnilega ósáttur í leikslok.

„Svona er lífið. Ég vildi byrja en þetta er liðsíþrótt og ég verð að taka þessu. Ég er ánægður með að hafa komið inn á.“

Hann segist vitanlega vera ánægður með sigurinn en tilfinningin sé öðruvísi en oft áður.

„Við unnum sigurstranglegasta lið mótsins á þeirra heimavelli. Við kvittuðum fyrir tapið í fyrstu umferðinni en mér fannst við vera betra liðið í þeim leik. Við unnum þá í bikarnum og svo aftur hér.“

„Ég sagði það eftir bikarleikinn að við erum með besta liðið. FH er með frábært lið en við erum betri.“

„Ég sjálfur var ekki ánægður með að byrja ekki. Ég var reiður en frammistaðan var góð. Reiðin braust út í lokin en þetta var ánægjuleg reiði.“

Og þú vilt byrja inn á í næsta leik?

„Ég vel ekki liðið. Það er ekki mitt starf að velja liðið. Ef ég byrja þá stend ég mig eins vel og ég get. Ég læt hann um að velja liðið.“

Ertu ánægður með að spila á kantinum?

„Nei. En ég verð að gera það. Ég ákveð ekki hvar ég spila. Ef þeim finnst að Hólmbert betri í að halda boltanum uppi þá þarf ég kannski að skapa meiri breidd. En ég verð að spila þar sem mér er sagt að spila. Þannig er það bara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×