Fótbolti

Davíð Þór: Kom á óvart hversu góðir þeir eru í fótbolta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Davíð Þór Viðarsson á blaðamannafundinum í gær.
Davíð Þór Viðarsson á blaðamannafundinum í gær. vísir/andri marinó
„Við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki komnir áfram þrátt fyrir að ná góðum úrslitum í fyrri leiknum,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, á blaðamannafundi í gær fyrir leik liðsins gegn SJK í Evrópudeildinni í kvöld.

FH vann fyrri leikinn gegn finnska liðinu, 1-0, á útivelli og er í góðri stöðu fyrir seinni leikinn sem fer fram í Kaplakrika í kvöld klukkan 19.15.

„Við sáum úti að þetta er gott lið og við þurfum að eiga góðan leik til að fara áfram. Þetta er vel spilandi lið, það er góð hreyfing á því og allir leikmennirnir með tölu góðir í fótbolta,“ sagði Davíð.

Böddi Löpp áttaði sig á þessu

FH-liðið var búið að sjá myndbönd af mótherjanum fyrir fyrri leikinn en Finnarnir komu fyrirliðanum engu að síður á óvart.

„Við vissum sem sem við hverju var að búast en það kom mér á óvart hversu góðir í fótbolta þeir eru og hversu líkamlega sterkir þeir eru. Þetta er virkilega gott lið,“ sagði Davíð Þór Viðarsson.

Böðvar Böðvarsson, bakvörður FH, sagði í viðtali við fótbolti.net fyrir fyrri leikinn að SJK væri álíka gott og miðlungs Pepsi-deildarlið.

„Ég held að Böðvar nokkur Böðvarsson hafi áttað sig á því, eins og við hinir, að þetta er mjög gott lið,“ sagði Davíð Þór.

Sannfærður um að fara áfram

Aðspurður hvort þetta væri ekki hárrétt hjá Bödda Löpp, eins og hann er kallaður, þar sem FH vinnur flest miðlungsliðin í Pepsi-deildinni með einu marki sagði Davíð brosandi: „Svo er það önnur pæling.“

Davíð Þór segir það verða mikil vonbrigði ef FH-liðið fer ekki áfram, en hann er bjartsýnn á góðan leik sinna manna.

„Við ætlum okkur áfram. Ég er sannfærður um, að ef við verðum jafnagaðir og í fyrri leiknum og bætum við að halda boltanum eru okkur flestir vegir færir í þessu einvígi,“ sagði Davíð Þór Viðarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×