Fótbolti

Engin Norðurlandaþjóð ofar en Ísland | Færeyjar upp um 28 sæti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska liðið er í 16. sæti af Evrópuþjóðum á nýjum styrkleikalista FIFA.
Íslenska liðið er í 16. sæti af Evrópuþjóðum á nýjum styrkleikalista FIFA. vísir/ernir
Eins og fram kom í morgun er íslenska karlalandsliðið í fótbolta  23. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA, en íslenska liðið hækkar sig um 14 sæti frá því síðasti listi var gefinn út.

Þessi styrkleikalisti er sérlega mikilvægur því hann ræður í hvaða styrkleikaflokki liðin verða þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni HM 2018 í Rússlandi.

Nú er ljóst að íslenska liðið verður í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í undanriðlana 25. júlí næstkomandi. Ísland hefur aldrei verið í jafn háum styrkleikaflokki þegar kemur að drætti í undanriðla stórmóts.

Ísland er í 16. sæti af Evrópuþjóðum á listanum en meðal þekktra evrópskra knattspyrnuþjóða sem eru fyrir neðan íslenska liðið á listanum má nefna Danmörku (24.), Úkraínu (27.), Rússland (28.), Svíþjóð (33.) og Serbíu (43.).

Ísland er líka efst á listanum af öllum Norðurlandaþjóðunum.

Danir eru sem áður sagði í 24. sæti, einu sæti á eftir Íslandi, og fara upp um fimm sæti frá síðasta lista.

Fyrrum lærisveinar Lars Lagerbäck í sænska landsliðinu eru í 33. sæti en þeir hækka líka um sex sæti frá því síðasti listi var gefinn út. Norðmenn eru enn neðar á blaði, í 67. sæti, en þeir falla niður um þrjú sæti.

Nágrannar okkar í Færeyjum mega betur við una en þeir eru komnir upp í 74. sætið og hækka sig upp um hvorki fleiri né færri en 28 sæti frá síðasta lista. Færeyingar unnu sterkan 2-1 sigur á Grikklandi í undankeppni EM 2016 í síðasta mánuði sem skilar þeim upp um öll þessi sæti.

Finnar eru svo í 90. sæti og falla niður um 12 sæti frá síðasta lista.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×