Íslenski boltinn

Hólmbert á leiðinni í KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson.
Hólmbert Aron Friðjónsson. Vísir/Daníel
Hólmbert Aron Friðjónsson, fyrrum framherji Celtic í Skotlandi og Bröndby í Danmörku, er á leiðinni í KR samkvæmt heimildum vefsíðunnar Fótbolti.net.

Hólmbert Aron fann sig hvorki hjá skoska liðinu né því danska sem fékk hann á láni. Hólmbert er því að leita sér að öðru liði og er KR ekki eina íslenska liðið sem er að ræða við hann.

Fótboltavefurinn 433.is greinir frá því að Stjarnan, Valur og Breiðablik hafi líka fundað með Hólmberti en samkvæmt heimildum Fótbolta.net gekk fundur hans með KR það vel að Hólmbert ætlar að ganga í raðir félagsins.

Hólmbert Aron Friðjónsson er 22 ára gamall og uppalinn hjá HK í Kópavogi. Hann sló hinsvegar í gegn í framlínu Fram sumarið 2013 eftir að Ríkharður Daðason tók við Fram og setti Hólmbert upp á topp.

Hólmbert Aron skoraði 10 mörk í 21 leik og varð fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar. Hann skoraði alls 11 mörk í 43 leikjum með Fram í Pepsi-deildinni.

Frammistaða Hólmberts tryggði honum fjögurra ára samning hjá skoska stórliðinu Celtic en hann náði þó ekki að spila keppnisleik með félaginu. Hólmbert skoraði síðan 1 mark í 11 leikjum með Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni en danska félagið vildi ekki framlengja lánsamninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×