Viðskipti erlent

Frestur Grikkja runninn út: Fyrsta þróaða hagkerfi sögunnar á vanskilaskrá AGS

Bjarki Ármannsson skrifar
Janis Varúfakis, fjármálaráðherra Grikklands, hefur átt erfiðan dag.
Janis Varúfakis, fjármálaráðherra Grikklands, hefur átt erfiðan dag. Vísir/AP
Frestur Grikkja til að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) þá 1,6 milljarða evra sem ríkið fékk í neyðaraðstoð frá sjóðnum rann út klukkan tíu í kvöld að íslenskum tíma. Grikklandi tókst ekki að greiða lánið, né endursemja um skuldina.

Grikkland er hér með eina þróaða land heimsins á „vanskilaskrá“ AGS, en fyrir á þeim lista eru Afríkuríkin Súdan, Sómalía og Simbabve. Stjórn AGS tekur ekki svo til orða að Grikkland sé í greiðslufalli en það hefur Jeroen Dijsselbloem, formaður fjármálanefndar evruþjóðanna, hinsvegar gert.

Samkvæmt upplýsingum frá AGS hefur gríska ríkið óskað eftir framlenginu á neyðarláninu en Grikkland fær ekki meira fjármagn frá sjóðnum fyrr en það er komið af vanskilaskrá.

Mikil óvissa ríkir um framhaldið. Grikkland er fyrsta þróaða hagkerfi sögunnar sem lendir í vanskilum gagnvart AGS og ljóst að fjárhagsvandræðum ríkisins er hvergi nærri lokið. Fjármálaráðherrar evruþjóðanna funda aftur á morgun en þeir höfnuðu fyrr í kvöld beiðni Grikklands um framlengingu á neyðarláninu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×