Íslenski boltinn

Bergsveinn í banni gegn Víkingi | Nýtt miðvarðapar hjá Fjölni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bergsveinn tekur út eins leiks bann vegna fjögurra gulra spjalda í kvöld.
Bergsveinn tekur út eins leiks bann vegna fjögurra gulra spjalda í kvöld. vísir/valli
Fjölnismenn verða án fyrirliða síns, Bergsveins Ólafssonar, í leiknum gegn Víkingi í 9. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Bergsveinn hefur fengið fjögur gul spjöld í deildinni í sumar og þarf því að fylgjast með leiknum í kvöld af hliðarlínunni.

Fjölnir hefur verið á gríðarlegri siglingu að undanförnu og unnið fimm leiki í röð í deild og bikar. Og með sigri á Víkingum kemst Grafarvogsliðið upp að hlið FH á toppi deildarinnar.

Það er þó spurning hvernig Fjölni tekst upp í varnarleiknum í kvöld án Bergsveins, en auk þess er makedónski miðvörðurinn Daniel Ivanovski farinn frá liðinu.

Sjá einnig: Fjölnir missir einn sinn besta mann.

Varnarleikur Fjölnis hefur verið sterkur í sumar en liðið hefur aðeins fengið á sig sjö mörk í átta deildarleikjum, auk þess sem Grafarvogsbúar hafa haldið hreinu í báðum bikarleikjum sínum.

Fjölnir hélt hreinu í bikarleiknum gegn Víkingi Ólafsvík í síðustu viku en það var fyrsti leikur liðsins eftir brotthvarf Ivanovskis. Haukur Lárusson spilaði við hlið Bergsveins í leiknum gegn Víkingi Ó. en hann mun að öllum líkindum halda sæti sínu í Fjölnisliðinu í kvöld.

Líklega mun Atli Már Þorbergsson spila með Hauki í hjarta Fjölnisvarnarinnar en Atli hefur komið við sögu í fimm leikjum í sumar. Spennandi verður að sjá hvernig þeim gengur að eiga við sóknarmenn Víkings í kvöld en Fossvogsliðið hefur ekki unnið deildarleik síðan 3. maí.

Sjá einnig: Gullöld framundan í Grafarvoginum?

Leikur Fjölnis og Víkings hefst klukkan 19:15 en hægt verður að fylgjast með honum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Gullöld framundan í Grafarvoginum?

Aðeins tvö lið á öðru ári í efstu deild hafa náð í fleiri stig í fyrstu átta umferðunum en þau sem Fjölnismenn hafa aflað í sumar frá því að þriggja stiga reglan var tekin upp 1984. Bæði Fram á níunda áratugnum og ÍA á þeim tíunda fögnuðu mörgum titlum í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×