Íslenski boltinn

Níu ára drengur gaf knattspyrnudeild Fylkis pening fyrir betri leikmönnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Egill Hrafn afhendir Herði peninginn.
Egill Hrafn afhendir Herði peninginn. Mynd/Heimasíða Fylkis
Ungur stuðningsmaður Fylkis safnaði 1100 krónum fyrir knattspyrnudeild félagsins. Þetta kemur fram á heimasíðu Fylkis.

Fram kemur í fréttinni að Egill Hrafn, níu ára iðkandi og stuðningsmaður Fylkis, hafi látið það fylgja við afhendingu fjárins að félagið gæti notað peninginn „til að kaupa bolta eða betri leikmenn,“ eins og segir á vefsíðu Fylkis.

„Hann kom hingað með mömmu sinni og afhenti peninginn formlega,“ sagði Hörður Guðjónsson, íþróttafulltrúi Fylkis, í samtali við Vísi í morgun.

„Ég hef ekki lent í svona löguðu áður en þetta er greinilega afar einlægur stuðningsmaður Fylkis sem vildi styrkja félagið sitt.“

„Ég held að orðum hans hafi nú ekki verið beint gegn neinum sérstökum leikmönnum í Fylki. Hann vill bara að styðja sitt lið,“ bætti hann við.

Hörður segir að peningurinn verði lagður inn á reikning knattspyrnudeildar. „Þetta verður notað í eitthvað gott,“ segir Hörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×