Íslenski boltinn

Mál Doumbia fer ekki fyrir aganefnd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kassim Doumbia mun ekki taka út refsingu fyrir fögnuð sinn eftir að hann skoraði jöfnunarmark FH gegn Breiðabliki í toppslag Pepsi-deildar karla á sunnudagskvöld.

Doumbia hljóp að myndatökuvél Stöðvar 2 Sports, sem var með leikinn í beinni útsendingu, og öskraði „Fuck off“ sem heyrðist greinilega í útsendingunni.

Knattspyrnudeild FH og Doumbia sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem ummælin voru hörmuð.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, hefur heimild til að vísa málum til aganefndar KSÍ sem teljast skaðleg íslenskri knattspyrnu. Hún hefur þó ákveðið að gera það ekki að þessu sinni.

„Þetta var honum ekki til sóma og íþróttinni ekki til framdráttar. En hann baðst afsökunar og ég læt það duga að þessu sinni,“ sagði Klara í samtali við Vísi í morgun.

Doumbia hóf tímabilið með því að taka út fjögurra leikja bann fyrir hegðun sína eftir lokaleik tímabilsins í fyrra. Þess má svo geta að Wayne Rooney, leikmaður Manchester United, var dæmdur í tveggja leikja bann árið 2011 fyrir svipaðar sakir.


Tengdar fréttir

Kassim: Veit ekki hvert ég var að hlaupa

Kassim Doumbia, miðvörður FH, var glaðbrosandi þegar hann spjalla við blaðamenn eftir leikinn enda nýbúinn að tryggja sínum mönnum eitt stig. FH og Breiðablik gerðu 1-1 jafntefli í toppslag Pepsi-deildar karla í kvöld.

Fær Doumbia sömu meðferð og Rooney?

"Ég skoða mál Doumbia síðar í dag,“ sagði framkvæmdastjóri KSÍ sem gæti ákveðið að vísa máli Kassim Doumbia til aganefndar.

Köld kveðja frá Kassim í kvöld: „Fuck off“ | Myndband

Kassim Doumbia var hetja FH-inga í kvöld þegar hann tryggði liðinu 1-1 jafntefli í toppslagnum við Breiðablik með því að jafna metin með skallamarki í uppbótartíma í leik liðanna í 9. umferð Pepsi-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×