Viðskipti innlent

Stefnt að því að kveða upp dóm í Kaupþingsmálinu á föstudag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason og Magnús Guðmundsson voru allir ákærðir í markaðsmisnotkunarmálinu.
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason og Magnús Guðmundsson voru allir ákærðir í markaðsmisnotkunarmálinu. vísir
Samkvæmt heimildum Vísis er stefnt að því að kveða upp dóm í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings á föstudaginn. Mun að öllum líkindum liggja fyrir á morgun hvort dómsuppsaga náist fyrir helgi.

Málið var dómtekið í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir rúmum fjórum vikum en dóma skal að jafnaði kveða upp innan fjögurra vikna. Þó eru fordæmi fyrir því að lengri tíma taki að kveða upp dóma í umfangsmiklum málum, líkt og markaðsmisnotkunarmálið var, en alls voru níu ákærðir fyrir markaðsmisnotkun eða umboðssvik, eða bæði, og tók aðalmeðferðin fimm vikur.

Á meðal þeirra sem voru ákærðir í málinu eru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings samstæðunnar, Magnús Guðmundsson, sem var forstjóri Kaupþings í Lúxemborg og Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi.

Gætu fengið níu ára langan dóm

Björn Þorvaldsson, saksóknari, fór fram á þunga dóma yfir Sigurði, Hreiðari og Ingólfi en hámarksrefsing fyrir þau brot sem þeim er gefið að sök er sex ára fangelsi. Sigurður og Hreiðar voru báðir dæmdir í fangelsi fyrir aðild sína að Al Thani-málinu, auk Magnúsar, og myndi hegningarauki þá bætast við refsingu þeirra.

Samkvæmt 72. grein almennra hegningarlaga má bæta við refsinguna allt að helmingi hennar ef menn hafa lagt það í vana sinn að fremja brot og er það því svo að hægt er að dæma Kaupþingstoppana í allt að níu ára fangelsi samtals. Fór saksóknari fram á það að refsiramminn yrði fullnýttur hvað þetta varðar í tilfelli Hreiðars og Sigurðar.

Þrátt fyrir að Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, hafi ekki hlotið dóm í Al Thani-málinu fór saksóknari engu að síður fram á að í hans tilfelli nýtti dómurinn sér ákvæði um hegningarauka fyrir endurtekin brot.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá því að dómur í málinu yrði kveðinn upp á föstudag.


Tengdar fréttir

Hverjir eru hvar í Kaup­þings­réttar­höldunum?

Ingólfur Helgason er eini sakborningurinn sem setið hefur alla aðalmeðferðina. Sigurður Einarsson kom í hálfan dag og starfsmennirnir "á gólfinu” létu ekki sjá sig þegar topparnir gáfu skýrslu.

Helmingur telur refsingar í al-Thani málinu of vægar

Prófessor í afbrotafræði segir niðurstöður rannsóknar á viðhorfi almennings til dóma í al-Thani málinu benda til þess að enn sé mikil reiði út í bankamenn. Íslendingar telja að efnahagsbrot séu alvarlegustu brotin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×