Íslenski boltinn

Freyr: Eigum bestu stuðningsmenn á landinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr og félagar hafa ekki unnið í síðustu fimm leikjum.
Freyr og félagar hafa ekki unnið í síðustu fimm leikjum. vísir/stefán
Freyr Alexandersson, annar þjálfara Leiknis, var ósáttur að fá ekki neitt úr leiknum gegn KR í kvöld.

"Þetta er mjög blóðugt og svekkjandi. Það er mín upplifun að við hefðum átt að fá meira út úr þessum leik," sagði Freyr.

"Við vorum með þá á löngum köflum og fáum svo á okkur mark eftir fast leikatriði sem er mjög ólíkt okkur."

Eyjólfur Tómasson, markvörður Leiknis, leit ekki vel út í markinu sem KR skoraði og lét svo reka sig út af á lokamínútunni fyrir að handleika boltann utan vítateigs. Freyr var að vonum óánægður með Eyjólf í þessum atvikum.

"Eyjólfur var frábær fram að markinu og var búinn að grípa vel inn í. Þeir réðust á hann í hornum en hann vælir ekkert, heldur réðist á boltann.

"En svo gerir hann mistök í markinu og hann veit það manna best. Og í kjölfarið fékk hann þetta rauða spjald."

Leiknismenn sköpuðu sér ekki mikið í leiknum í kvöld en þó nógu mikið að mati Freys til að skora.

"Við fáum nægilega mörg færi og opnanir til að skora á þá. Þeir áttu ekki fleiri færi en við. Munurinn er að þeir skoruðu úr föstu leikatriði og maður er bara drullusvekktur, þar sem augnablikið var okkar og kvöldið var okkar.

"Mér fannst við mjög vel skipulagðir og planið gekk upp hjá okkur," sagði Freyr en Leiknir hefur nú ekki unnið síðustu fimm leiki sína í Pepsi-deildinni og er aðeins einu stigi frá fallsæti.

Þjálfarinn hrósaði stuðningsmannasveitinni Leiknisljónunum fyrir þeirra framgöngu í kvöld en þau sungu allan leikinn og sennilega í 10 mínútur eftir að Valdimar Pálsson, dómari leiksins, flautaði til leiksloka.

"Við gerðum okkur grein fyrir að þetta yrði erfitt en það sest alltaf á sálina að vinna ekki leiki. Það er óþolandi og það er ennþá meira óþolandi þegar þú átt bestu stuðningsmenn á landinu og getur ekki gefið þeim sigur.

"Við setum þá kröfu á okkur sjálfa að ná í þrjú stig gegn Keflavík. Við gerum allt sem við getum til að vinna þann leik," sagði Freyr að lokum en Leiknir og Keflavík mætast á Leiknisvelli eftir tvær vikur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×