Íslenski boltinn

Haukur Páll: Ógeðslegt að fá hráka í andlitið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Páll Sigurðsson.
Haukur Páll Sigurðsson. Vísir/Stefán
Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði karlaliðs Vals í fótbolta var gestur Hjartar Hjartarsonar í þætti hans Akraborginni á X-inu í dag þar sem Haukur Páll ræddi um samskipti sína og eins leikmanns Skagamanna í leik liðanna í 10. umferð Pepsi-deildar karla í gær.

Haukur Páll fékk hráka í andlitið frá leikmanni Skagamanna í miðjum leik liðanna í gærkvöld en Valur vann leikinn 4-2.

„Í aðdraganda fjórða marksins þá snýr hann baki í mig og ég set pressu á hann. Ég vinn boltann af honum en hann er að biðja um aukaspyrnu eða eitthvað. Ég segi honum að standa upp og hann gerir það en rýkur svo beint í áttina að mér," lýsir Haukur Páll.

„Það fara einhver orðaskipti okkar á milli sem er eitthvað sem gerist í nánast hvaða fótboltaleik sem er. Þegar ég er búinn að ljúka mínum orðum þá smellir hann einum hráka í andlitið á mér," segir Haukur Páll.

„Hann ákvað að gera þetta en mér finnst þetta viðbjóðslegt. Ég sagði það í einhverju viðtali í gær að ég get tekið öllum orðum sem eru sögð í hita leiksins en þetta finnst mér vera fyrir neðan allar hellur," segir Haukur Páll.

„Ég var ekki par sáttur og ætlaði að láta hann vita af því að svona gerir maður ekki. Þetta er bara búið og gert og ég ætla ekki að erfa þetta við hann. Þetta er eitthvað sem hann verður bara að skoða í sínum leik. Hann getur sagt allan fjandann við mig í miðjum leik en þetta er ekki boðlegt," sagði Haukur Páll.

Það þurfti samt að róa Hauk Pál niður eftir leikinn en hann var allt annað en sáttur.

„Það er ógeðslegt að fá þetta í andlitið þegar þú ert að rífast við einhvern mann inn á vellinum," sagði Haukur Páll.

Það er hægt að hlusta á allt viðtalið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×