Fótbolti

Ragnar: Var ekkert sérstaklega erfiður leikur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Vísir/Ernir
„Þetta var ljúfasti sigurinn til þessa," sagði varnarjaxlinn Ragnar Sigurðsson sem átti enn einn stórleikinn með íslenska liðinu í kvöld.

„Við vorum ekki að spila nógu vel og svo finnst mér þeir fá heppnismark. Það er ekki auðvelt að hitta boltann svona á þessum velli.

„Svo sjáum við bara hvað gerist. Við settum bara í sjötta gír og rúlluðum yfir þá. Við vorum brjálaðir er þeir skora, setjum fullan kraft í þetta og klárum þetta," sagði Ragnar en hann var á því að Tékkarnir hefðu borið mikla virðingu fyrir íslenska liðinu.

„Ég held þeir hafi fundið fyrir kraftinum í okkur og ekki alveg vitað hvernig ætti að bregðast við því. Mér fannst þeir ekki fá nein færi fyrir utan einn skalla í fyrri hálfleik.

„Þetta var eiginlega ekkert sérstaklega erfiður leikur. Þeir voru ekki að ógna okkur neitt. Þetta snérist eiginlega bara um að strákarnir frammi myndu klára þetta fyrir okkur og þeir gerðu það," segir Ragnar en hann hefur trú á því að íslenska liðið sé fullri ferð í miklu ævintýri.

„Ég held það. Við höfum alltaf stefnt að því að komast á EM en við bíðum með að segja að þetta sé klárt þar til þetta er orðið klárt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×