Íslenski boltinn

Pepsi-mörkin: Hans besta er bara ekki nógu gott

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari Leiknis, var afar ósáttur við störf dómaranna eftir 3-0 tap gegn Fjölni í gær.

Allra helst var hann ósáttur við að mark hafi verið dæmt af Leiknismönnum eftir að aðstoðardómari í leiknum dæmdi að boltinn hafi verið farinn út af áður en hann fór svo yfir línuna.

Málið var rætt ítarlega í Pepsi-mörkunum á Stöð 2 Sport í gær en gestir Harðar Magnússonar voru Arnar Gunnlaugsson og Hjörtur Hjartarson.

„Þetta er skelfileg ákvörðun hjá línuverðinum. Boltinn fór aldrei út af - aldrei nálægt því,“ sagði Arnar um markið sem var dæmt af Leiknismönnum.

„Þetta er gjörsamlega óþolandi,“ sagði Hjörtur. „Og ég skil vel reiði Freys Alexanderssonar.“

Þeir eru sammála um að breytinga sé þörf eftir áberandi mistök hjá dómurum og aðstoðardómurum í deildinni í sumar.

„Ef að Gylfi Orrason hefur ekki áhyggjur af þessu þá eru menn ekki að sinna vinnunni sinni,“ bætti Hjörtur við en Gylfi er formaður dómaranefndar KSÍ.

„Ég efast ekki um að Smári Stefánsson aðstoðardómari sé að gera sitt besta. Hans besta er bara ekki nógu gott,“ sagði Hörður.

Umræðuna alla má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×