Fótbolti

Henry: Wales á að trúa á að liðið geti orðið Evrópumeistari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gareth Bale og félagar hafa slegið í gegn i undankeppni EM og rokið upp styrkleikalista FIFA.
Gareth Bale og félagar hafa slegið í gegn i undankeppni EM og rokið upp styrkleikalista FIFA. Vísir/Getty
Wales hefur, rétt eins og Ísland, slegið í gegn í undankeppni EM 2016. Liðið vann Belgíu, 1-0, í síðasta leik og er með þriggja stiga forystu á toppi síns riðils þegar fjórir leikir eru eftir.

Thierry Henry, fyrrum landsliðshetja Frakklands, segir að leikmenn Wales eigi að trúa því að þeir geti farið alla leið á næsta ári, komist liðið til Frakklands.

„Möguleikar liðsins á að komast áfram eru frábærir. Gleymum ekki hvað gerðist árið 2004. Enginn átti von á því að Grikkir yrðu Evrópumeistarar en þeim tókst það,“ sagði Henry.

„Ef þeim tekst að tryggja sér farseðilinn til Frakklands þurfa leikmennirnir að fara þangað með þá trú að þeir geti unnið keppnina. Annars er allt eins gott fyrir þá að sitja eftir heima.“

Henry hefur dvalið mikið í Wales síðustu daga og vikur þar sem hann er nú í knattspyrnuþjálfaranámi. Hann varð á sínum tíma bæði heims- og Evrópumeistari með Frakklandi.

Wales hefur einu sinni komist í úrslitakeppni stórmóts en það var árið 1958 er liðið keppti á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×