Íslenski boltinn

Hjörvar um fjölmiðlabann FH: Þetta er svo glórulaust

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Það er ekki hægt að skilja við þennan leik án þess að minnast á það að leikmenn FH tóku upp á því að fara í fjölmiðlabann,“ sagði Hjörvar Hafliðason, einn sérfræðinga Pepsi-markanna, í þætti gærdagsins.

Leikmenn FH neituðu að tala við blaðamenn Fótbolta.net og 433.is eftir 4-1 sigur Fimleikafélagsins á ÍA í gær.

Ástæðan fyrir banninu er frétt sem skrifuð var á 433.is, og Fótbolti.net tók svo upp, eftir leik Vals og FH þar sem fjallað var um meint ummæli Bjarna Þórs Viðarssonar, leikmanns FH, í garð leikmanns Vals.

„Þetta er svo glórulaust. Fjölmiðlar gera mistök eins og leikmenn,“ bætti Hjörvar við.

„Þarna kom einhver frétt sem var bull eða ekki bull. En það eru stuðningsmenn liðsins sem líða fyrir þetta, því þeir lesa þetta.

„Þetta eru ungir og vinsælir miðlar. Fótboltinn má ekki taka vinsældum sínum sem svona sjálfsögðum hlut, því þarna eru menn að vinna mikla og erfiða vinnu.

„FH er orðið svo stórt félag. Þetta var ekki neitt neitt. Það er hluti af því að sinna ykkar stuðningsmönnum að tala við fjölmiðla,“ sagði Hjörvar að lokum en innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×