Íslenski boltinn

Gary Martin kennir Fylkisvellinum um meiðslin sín | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Martin fer hér meiddur af velli.
Gary Martin fer hér meiddur af velli.
Gary Martin, markakóngur Pepsi-deildarinnar síðasta sumar, verður ekki með KR-liðinu næstu vikurnar eftir að hann meiddist á hné í sigrinum á Fylki á Fylkisvelli á miðvikudagskvöldið.

Martin kennir Fylkisvellinum um það hvernig fór í samtali við Sindra Sverrisson í Morgunblaðinu í dag. „Vellirnir eru ekki góðir núna og ég held að það hafi haft sitt að segja. Takkarnir festust í jörðinni og þetta var líkara sandi en grasi þannig að löppin festist aðeins," segir Gary Martin í viðtalinu í Morgunblaðinu.

„Ég var að reyna að sparka boltanum og sveiflaði fætinum af fullum krafti en ég fann strax að eitthvað hefði gerst í hnénu," sagði Gary.

Gary Martin gæti misst af næstu fjórum deildarleikjum KR auk bikarleiks við Keflavík. Þetta verða fyrstu leikirnir sem Englendingurinn missir af síðan að hann kom til Íslands. „Ég er búinn að vera heppinn. Síðan að ég kom til Íslands hef ég ekki misst af einum einasta leik vegna meiðsla," sagði Gary Martin í fyrrnefndu viðtali.

Gary Martin hefur skorað eitt mark í fyrstu fjórum leikjum KR í sumar en hann var með 13 mörk í Pepsi-deildinni undanfarin tvö tímabil. Martin hefur spilað með KR frá miðju tímabili 2012 eða síðan að hann kom frá ÍA.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af því þegar Gary Martin meiðist í leiknum á móti Fylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×