Innlent

Skjálftarnir í Nepal: Verzlingar gáfu 300 þúsund til neyðarsöfnunar UNICEF

Atli Ísleifsson skrifar
Verzlingarnir Helga Lára Guðmundsdóttir og Svava H. Johannessen afhentu upphæðina fyrir hönd Góðgerðafélags skólans.
Verzlingarnir Helga Lára Guðmundsdóttir og Svava H. Johannessen afhentu upphæðina fyrir hönd Góðgerðafélags skólans. Mynd/UNICEF
Góðgerðafélag Verzlunarskóla Íslands gaf í gær 300 þúsund krónur til neyðarsöfnunar UNICEF fyrir börn í Nepal.

Góðgerðafélagið hafði safnað í heilt ár með ýmsum viðburðum, svo sem bingói, happdrætti og sölu á ýmsu dóti á skólaviðburðum. Þegar liðsmenn í ráðinu sáu fréttir af skelfingarástandinu í Nepal gerðu þeir sér grein fyrir því að þarna þyrfti að hjálpa til. Var því ákveðið að leggja 300 þúsund krónur til neyðarhjálpar UNICEF.

Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi, segir UNICEF vera nemendunum ótrúlega þakklát. 

Neyðin í Nepal er gríðarleg eftir tvo stóra jarðskjálfta og marga minni eftirskjálfta og framlag Verzlinga mun virkilega koma að gagni. Þau munu meðal ann­ars fara í að út­vega hreint vatn og hreinlæt­is­gögn, neyðarskýli, nauðsyn­leg lyf og sál­ræn­an stuðning fyrir börn sem hafa upplifað alltof mikið. UNICEF hefur þegar hjálpað ótal börnum á skjálftasvæðinu og framtak eins og þetta hjá nemendunum í Verzló gerir okkur kleift að gera enn þá meira,“ segir Sigríður.

Verzlingarnir Helga Lára Guðmundsdóttir og Svava H. Johannessen afhentu upphæðina fyrir hönd Góðgerðafélags skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×