Íslenski boltinn

Vann Liverpool 6-1 á sunnudaginn og æfði með ÍBV í dag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marc Wilson er írskur landsliðsmaður og á 20 leiki fyrir Írland.
Marc Wilson er írskur landsliðsmaður og á 20 leiki fyrir Írland. vísir/getty
Írski knattspyrnumaðurinn Marc Wilson, leikmaður Stoke í ensku úrvalsdeildinni og írska landsliðsins, æfði með ÍBV í Vestmannaeyjum í dag.

„Við erum að ganga frá samningi við hann,“ sagði Tryggvi Guðmundsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, léttur í bragði við Vísi í kvöld.

„Nei, nei. Hann er góður félagi Hemma Hreiðars og þeir voru saman í Vestmannaeyjum þannig ég bauð þeim að vera með á æfingunni,“ sagði Tryggvi.

Markahrókurinn Tryggvi sá um æfingu Eyjaliðsins í dag og stillti upp í þrjú lið; Vestmannaeyingar, útlendingar og „aðkomupakk“ eins og hann grínaðist með sjálfur.

„Erlendu leikmennirnir unnu enda fengu þeir helvíti góða sendingu þarna rétt fyrir æfingu í Wilson. Þetta er virkilega flottur gaur,“ segir Tryggvi.

Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi leikmaður og þjálfari ÍBV, var einnig með á æfingunni, en hann spilaði með Wilson í Portsmouth.

„Ég setti Hemma í aðkomupakkið,“ sagði Tryggvi Guðmundsson og hló.

Marc Wilson var 25 sinnum í byrjunarliði Stoke á nýyfirstaðinni leiktíð í ensku úrvalsdeildinni. Hann kom inn á sem varamaður í lokaleiknum þar sem Stoke niðurlægði Liverpool, 6-1.

Sead Gavranovic, danskur framherji ÍBV, setti mynd af sigurliðinu á Facebook-síðu sína sem sjá má hér til hliðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×