Innlent

Rauði krossinn sendir tvo til viðbótar til Nepal

Bjarki Ármannsson skrifar
Helga (t.v.) og Elín.
Helga (t.v.) og Elín. Mynd/Rauði krossinn
Rauði krossinn á Íslandi hefur sent tvo sendifulltrúa til viðbótar til starfa í Nepal vegna neyðarástands í kjölfar jarðskjálftans í síðasta mánuði. Helga Pálmadóttir hjúkrunarfræðingur lenti í höfuðborginni Katmandú í dag og Elín Jónasdóttir sálfræðingur er væntanleg á morgun. Ríkharður Már Pétursson rafiðnfræðingur er nú þegar staddur í Nepal.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Rauða krossinum mun Elín ganga til liðs við teymi sem starfar við að meta þörfina á hjálparstarfi í landinu. Elín kemur til með að leiða alla skipulags- og greiningarvinnu um áfallahjálp og sálrænan stuðning.

Elín hefur víðtæka reynslu sem starfsmaður, sjálfboðaliði og sendifulltrúi á vegum Rauða krossins. Hún hefur meðal annars starfað í sérhæfðum neyðarsveitum samtakanna á Haítí, í Filippseyjum og í Sierra Leone.

Helga kemur til með að starfa sem deildarhjúkrunarfræðingur í tjaldsjúkrahúsi norska Rauða krossins í Chautara í norðurhluta Nepal. Þetta er fyrsta sendiför Helgu á vegum Rauða krossins en hún hefur víðtæka menntun og reynslu sem hjúkrunarfræðingur. Sem slíkur hefur hún starfað um árabil á bráðadeild Landspítalans. Hún mun koma til með að starfa með Ríkharði Má, sem var fyrsti sendifulltrúi Rauða krosssins á Íslandi í Nepal.


Tengdar fréttir

32 milljónir króna safnast fyrir hjálparstarf í Nepal

Tala látinna hækkar enn í Nepal en ljóst er að björgunarstarf og uppbygging í landinu mun taka mörg ár. Félag Nepala á Íslandi kom til fundar í Breiðholtssskóla í dag til að fara yfir stöðuna í landinu með fulltrúm frá Rauða Krossinum á Íslani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×