Fótbolti

Ter Stegen: Erum í góðri stöðu til að vinna þrennuna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marc-André ter Stegen spilar ekki jafnmarga leiki og hann gerði í Þýskalandi.
Marc-André ter Stegen spilar ekki jafnmarga leiki og hann gerði í Þýskalandi.
Marc-André ter Stegen, þýski markvörðurinn hjá Barcelona sem spilar Meistaradeildar- og bikarleiki liðsins, segir liðið í frábærri stöðu til að vinna þrennuna.

Barcelona er með fjögurra stiga forystu á toppi spænsku 1. deildarinnar og þarf aðeins að vinna annan af tveimur síðustu leikjum liðsins til að endurheimta Spánarmeistaratitilinn.

Þá er liðið komið í úrslitaleik spænska bikarsins þar sem það mætir Athletic Bilbao og í kvöld geta Börsungar komist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Barcelona er 3-0 yfir gegn Bayern München eftir fyrri leikinn á Nývangi þar sem Lionel Messi fór á kostum og skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu.

„Við erum í góðri stöðu til að vinna þrennuna. Við erum í úrslitum bikarsins og efstir í deildinni. Svo gætu hlutirnir ekki verið í betri málum í Meistaradeildinni,“ segir Ter Stegen í viðtali við vefsíðu UEFA.

Þýski markvörðurinn kom frá Borussia Mönchengladbach síðasta sumar en náði ekki að vinna sér inn sæti sem aðalmarkvörður Barcelona. Hann spilar sem fyrr segir leikina í bikar og Meistaradeild.

„Þetta er öðuruvísi fyrir mig og hefur verið mikil breyting. Svo er menningin líka allt önnur. Það erfiðasta er að spila ekki vikulega en Bravo er að spila vel í deildinni og stendur sig vel,“ segir Marc-André ter Stegen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×