Viðskipti innlent

Ekki ljóstrað upp um mörg leyndarmál á fundi vitnis með verjanda Hreiðars

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más, er lengst til vinstri á myndinni.
Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más, er lengst til vinstri á myndinni. Vísir
Komið hefur fram við réttarhöldin í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings að tvö vitni áttu fundi með verjendum í málinu áður en þau komu fyrir dóminn. Vitnin sem um ræðir eru annars vegar Steingrímur Kárason, sem var framkvæmdastjóri áhættustýringar bankans, og Helgi Sigurðsson, yfirlögfræðingur Kaupþings. 



Steingrímur bar vitni í gær og sagðist hafa átt fundi með verjendum Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar og Ingólfs Helgasonar.

Verjandi Hreiðars, Hörður Felix Harðarson, spurði Steingrím hvort eitthvað hefði verið reynt að hafa áhrif á framburð hans á þeim fundum og kvað hann svo ekki hafa verið. Þá sagðist hann ekki hafa verið beittur þrýstingi til að segja neitt annað en sannleikann. 



Helgi og Hörður Felix funduðu í gær

Fyrir dómi í dag kom svo fram að Helgi átti fund með Herði Felix í gær. Kvaðst hann hafa séð einhver gögn úr málinu á þeim fundi en aðspurður sagði hann fundinn hafa snúist um hvað það væri sem hann gæti upplýst í málinu.

Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar, spurði svo hvort það væri ekki rétt skilið af gögnum málsins að Helgi hefði verið sakborningur í málinu á ákveðnum tímapunkti. Játti Helgi því. Gestur spurði hann þá hvort hann hefði ekki haft öll gögn málsins undir höndum vegna þess.

„Jú, það er rétt. Ég er með öll gögn málsins.”

Gestur spurði í þessu ljósi hvort Helgi héldi að uppljóstrað hefði verið um mörg leyndarmál á fundi hans með Herði Felix.

„Nei, það held ég nú ekki.”


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×