Íslenski boltinn

Guðjón Pétur: Set stefnuna á að skora meira en í fyrra

Guðjón Pétur Lýðsson hefur farið á kostum með Blikum í fyrstu leikjum liðsins í Pepsi-deildinni og er markahæsti leikmaður deildarinnar með þrjú mörk í þremur leikjum.

Blikinn sparkvissi byrjaði mótið á bekknum en kom inn í hálfleik gegn Fylki í fyrsta leik og tryggði Blikum stig. Hann hefur síðan haldið uppteknum hætti.

„Það er búið að spyrja mig nokkrum sinnum að því en ég held að það sé klárt mál að menn eru aldrei sáttir við að byrja á bekknum. Það var mjög svekkjandi að byrja á bekknum en þá er um að gera að koma sér í liðið," segir Guðjón Pétur í viðtali við Hörð Magnússon.

Öll þrjú mörk Guðjóns hafa bjargað stigi fyrir Blika sem hafa gert jafntefli í öllum þrem leikjum sínum til þessa.

„Það er gott ef mörkin hjálpa okkur. Ég tæki samt frekar þrjú stig í staðinn fyrir mark hjá mér. Það er það sem koma skal. Að við förum að ná í þrjú stig," segir Guðjón Pétur en Blikarnir eru óumdeildir jafntefliskóngar Íslands og gerðu tólf jafntefli á síðustu leiktíð.

Arnar Grétarsson, þjálfari Blika, hefur þótt koma mjög fagmannlega fram og fer gott orð af honum. Er hann samt ekkert að öskra á menn á æfingum?

„Nei, hann hefur nú haldið ró sinni. Það er alger óþarfi að detta í eitthvað panikk núna enda bara þrír leikir búnir og við ekkert að spila illa," segir miðjumaðurinn en Blikar spila við Valsmenn á morgun.

„Það er alltaf gaman að spila þar og mér þykir mjög vænt um tímann sem ég var hjá Val," segir Guðjón en hvað ætlar hann að skora mikið í sumar?

„Ég setti stefnuna á að skora meira en í fyrra. Þá skoraði ég átta mörk. Það er raunhæft markmið ef ég fæ að spila."

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×