Viðskipti innlent

Hreiðar Már í héraðsdómi: Frétti það hjá lögreglu að 12 milljarða króna lán til Kevin Stanford fór aldrei fyrir lánanefnd Kaupþings

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson í héraðsdómi í dag.
Hreiðar Már Sigurðsson í héraðsdómi í dag. vísir/gva
Skýrslutöku yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, lauk rétt fyrir klukkan 17 í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hreiðar er ákærður í umfangsmiklu markaðsmisnotkunarmáli sem sérstakur saksóknari hefur höfðað gegn honum og átta öðrum fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum bankans.

Hreiðar er bæði ákærður fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik en neitar sök í öllum liðum ákærunnar og gat ekki svarað mörgum spurningum saksóknara í dag.

Á meðal þess sem hann er ákærður fyrir eru viðskipti eignarhaldsfélaganna Holt, Mata og Desulo með hlutabréf í Kaupþingi. Bankinn seldi eigin bréf til félaganna og lánaði fyrir kaupunum með veði í bréfunum sjálfum.

Telur saksóknari að viðskiptin hafi byggt á blekkingum og sýndarmennsku auk þess sem fé bankans hafi verið stefnt í verulega hættu þar sem endurgreiðsla lánanna hafi ekki verið tryggð, að því er segir í ákæru.

„Þetta er orðið hið versta mál”

Fyrir dómi sagðist Hreiðar hvergi hafa komið nálægt viðskiptum Holt og Mata með hlutabréf í Kaupþingi. Hvað varðaði viðskipti Desulo gekkst hann því að hafa á lánanefndarfundi afgreitt eitt lán til félagsins upp á rúmar 700 milljónir króna í júní 2008.

Saksóknari spilaði svo símtal sem hlerað var við rannsókn málsins vorið 2010 þar sem Bjarki Diego, framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi og einn af ákærðu í málinu ræðir kaup Desulo og lán til félagsins við Hreiðar Már:

BD: „Þegar þetta kemur inn á borð hjá lánanefndinni þá er í raun búið að eiga viðskiptin.”

HMS: „Já, já.”

BD: „Þeir vísuðu í Egil og hann vissi bara ekki meir sagði hann.”

HMS: „Nei, nei.”

BD: „Og einhvers staðar koma einhver fyrirmæli sem ég veit ekki hvaðan komu.”

HMS: „Nei, nei.”

BD: „Þannig að þetta er orðið hið versta mál [...]”

Bjarki heldur svo áfram í símtalinu að velta fyrir sér hvaðan fyrirmæli um viðskiptin hafi komið en Hreiðar segir ekkert um það annað en að þeir myndu „aldrei láta þetta út úr okkur.”

Bjarki segir þá að hann geri ráð fyrir því að þegar um svo stór viðskipti sé að ræða þá geti „ekki bara einhver miðlari eða EVK-maður tekið ákvörðun um það.” Hreiðar samsinnir því og segir svo stuttu síðar: „Mér sýnist þetta vera versta málið.”

Spurður út í þetta símtal fyrir dómi sagði Hreiðar:

„Varðandi það að selja bréfin þá geta eigin viðskipti tekið ákvörðun um það. Það þarf enga sérstaka aðkomu háttsettari manns að því en þegar kemur að því að veita lán til kaupanna þurfti samþykki lánanefndar.”

Hreiðar sagði svo að þeim hefði borist það til eyrna að Egill Árnason, eigandi Desulo, hafi ekkert vitað um viðskiptin en það hafi þó ekki verið alveg þannig. Þá kvaðst Hreiðar aldrei hafa rætt sjálfur við Egil og að hann hafi átt frumkvæði að viðskiptunum við Desulo.

Kevin Stanford var stóreignamaður en skuldaði líka mikið

Í seinasta lið ákærunnar eru Hreiðar og Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa veitt breska kaupsýslumanninum Kevin Stanford peningamarkaðslán upp á 12,4 milljarða króna til að kaupa hlutabréf í bankanum. Eiga þeir að hafa gert þetta þrátt fyrir að hafa vitað um slæma fjárhagsstöðu Stanford.

„Aðdragandinn er sá að Kevin Stanford óskar eftir að kaupa hlutabréf vorið 2008. Ég tjái honum að við séum tilbúnir að selja honum bréf með fjármögnun en ég gekk ekki frá neinu láni og veitti ekki neitt lán vegna þessara viðskipta,” sagði Hreiðar fyrir dómi.

Hann sagði að Stanford hafi verið stóreignamaður og þrátt fyrir að hann hafi líka skuldað mikið þá hafi Hreiðar metið það sem svo að það væri gott að fá hann sem hluthafa í bankanum. Aðspurður sagðist Hreiðar svo ekki hafa tekið ákvörðun um að lána Stanford fyrir kaupunum en saksóknari varpaði þá upp endurriti úr skýrslutöku yfir Hreiðari hjá lögreglu:

„Þá var það ég sem tók ákvörðun um að selja Kevin Stanford og ég tók ákvörðun um það að lánið yrði veitt og ég upplýsti Sigurð Einarsson um það.”

Síðar í skýrslutökunni sagði Hreiðar:

„Ég ræði við Sigurð Einarsson um þetta og hringi í Guðmund Þór [Gunnarsson, viðskiptastjóri útlána hjá Kaupþingi] eða sendi honum tölvupóst og segi, heyrðu við erum búnir að ákveða þetta. Í mínum huga er ég að biðja hann um að útbúa lánabeiðni og keyra þetta hinn hefðbundna lánaleið.”

„Þetta var klúður eða mistök hjá viðskiptastjóra”

Spurður út í þetta sagði Hreiðar að hann hefði komist að því við skýrslutöku hjá lögreglu að lánið til Stanford hefði aldrei farið fyrir lánanefnd.

„Ég hafði ekki hugmynd um það að lánið hafði ekki farið fyrir lánanefnd og það kom mér mjög á óvart þegar ég frétti það.”

Þá þvertók Hreiðar fyrir að hafa gefið fyrirmæli um að lánið yrði veitt og sagðist ekki hafa haft heimildir til að veita slíkt lán.

„Enda veitti ég ekkert lán.”

Spurður hvers vegna lánið fór ekki fyrir lánanefnd vísaði Hreiðar í orð Bjarka Diego úr símtali hans við Helga Sigurðsson, lögfræðing hjá Kaupþingi, sem spilað var fyrir dómi.

„Það er ljóst hvert er mat Bjarka á þessu. Þetta var klúður eða mistök hjá viðskiptastjóra.”


Tengdar fréttir

Hreiðari heitt í hamsi

„Eins og ákæruvaldið haldi að ég hafi sagt satt um Al Thani og Kevin Stanford en svo ákveðið að ljúga um þetta,” sagði reiður Hreiðar Már Sigurðsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×