Sport

Tom Brady: Skýrslan skemmir ekki Super Bowl-sigurinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tom Brady hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu.
Tom Brady hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu. vísir/getty
Eins og kom fram í vikunni segir í 243 blaðsíðna rannsóknarskýrslu NFL-deildarinnar um undanúrslitaleik New England og Indianapolis að meistararnir hafi líklega haft rangt við.

Rannsóknin snérist um hvort Patriots hefði viljandi haft of lítið loft í boltunum er liðið vann Indianapolis Colts, 45-7, í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð. Þessi sigur sendi liðið í Super Bowl þar sem liðið vann dramatískan sigur.

Niðurstöðurnar eru ekki afgerandi en í henni stendur að það sé líklegra en ekki að Patriots hafi gert þetta viljandi.

Tom Brady, leikstjórandi New England Patriots og heilinn í liðinu, sat fyrir svörum í Salem State-háskólanum í Massachusetts-ríki í gær þar sem hann var spurður út í skýrsluna.

Aðspurður hvort rannsóknarskýrslan eyðileggi Super Bowl-sigur Patriots svaraði Brady: „Alls ekki“

Brady bætti við að hann væri ekki enn búinn að melta það sem kæmi fram í rannsókninni.

„Vonandi átta ég mig á þessu sem fyrst. Það eru ýmsir hlutir í gangi sem ég er að vinna úr. Ég vil klárlega vera í betri stöðu þegar ég gef út ákveðin svör við þessu,“ sagði Tom Brady.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×