Viðskipti innlent

Markaðsmisnotkunarmálið: „Það grunaði engan að við værum að taka þátt í lögbroti“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. vísir/gva
Símtal á milli Péturs Kristins Guðmarssonar, sem er einn af ákærðu í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, og óþekkts karlmanns var spilað fyrir dómi í dag. Var það tekið upp við rannsókn málsins í maí 2010.  

Pétur var verðbréfasali hjá eigin viðskiptum bankans og er ákærður fyrir að hafa vísvitandi haldið uppi verði hlutabréfa í bankanum með því að hafa keypt mikið magn bréfa og þannig gripið á óeðlilegan máta inn í markaðinn.

Í símtalinu segir Pétur meðal annars við manninn:

„Við vorum bara að framfylgja fyrirmælum. [...] Það grunaði engan að við værum að taka þátt í lögbroti. Maður sér það bara núna eftir á.“

„Okkur leið kannski ekkert alltof vel með þetta“

Saksóknari spurði hann út í þessi ummæli og hvort að þeir, hann og Birnir Sær Björnsson sem einnig er ákærður í málinu, hafa verið að framfylgja fyrirmælum í blindni, hvort þeir hafi ekki spurt neinna spurninga.

„Við spurðum okkar yfirmann spurninga, Einar Pálma,“ svaraði Pétur. Saksóknari spurði hvort þeir hafi spurt spurninga þegar þeir efuðust um lögmæti þess sem þeir gerðu. Pétur svaraði því ekki beint heldur sagði:

„Okkur leið kannski ekki alltof vel með þetta.“

„Eitthvað bogið“ við söluna til Al Thani

Hann var þá spurður á hverju hann hefði áttað sig eftir á.

„Ég er bara að vísa í sölurnar sem voru á þessum tíma í fréttum. Við vissum ekki hvernig þessar sölur voru fjármagnaðar. Til dæmis salan til Al Thani. [...] Eftir á að hyggja finnst manni þetta mjög slæmt.“

Saksóknari reyndi þá að fá fram hvort að hann hefði ekki brotið lög með kaupum á bréfum í bankanum.

„Nei, kaupin sem slík eru í lagi en ef maður skoðar söluna þá virðist vera eitthvað bogið í gangi, ef maður miðar til dæmis við dóminn í Al Thani-málinu. En það var aldrei neitt óeðlilegt við kaupin okkar, það var ekkert ólöglegt.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×