Viðskipti innlent

Markaðsmisnotkunarmálið: „Vert þú ekkert að bera þig saman við ákæruvaldið“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Pétur Kristinn, lengst til hægri, ásamt Vífil Harðarsyni, verjanda sínum, og Bjarna Aðalgeirssyni í dómssal í morgun.
Pétur Kristinn, lengst til hægri, ásamt Vífil Harðarsyni, verjanda sínum, og Bjarna Aðalgeirssyni í dómssal í morgun. Vísir/GVA
Þriðji dagur aðalmeðferðar í máli sérstaks saksóknara gegn níu fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings hófst klukkan níu í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur. Komið er að því að verjandinn Vífill Harðarson spyrji Pétur Kristinn Guðmarsson en hann er einn ákærðu í málinu.

Pétur var verðbréfasali hjá eigin viðskiptum Kaupþings og er ákærður fyrir að hafa tekið þátt í allsherjarmarkaðsmisnotkun með því að kaupa mikið magn af hlutabréfum í bankanum með það að augnamiði að halda verði þeirra uppi.

 

Á Pétur að hafa gert þetta að undirlagi yfirmanna sinna, meðal annars Ingólfs Helgasonar, en hann var forstjóri Kaupþings á Íslandi.

Kauphallarhermirinn

Vífill útskýrði hvernig Kauphallarhermirinn virkar þar sem hann ætlaði að spila úr honum í kjölfarið. Að útskýringum loknum sneri Vífill sér að því að gagnrýna að hermirinn spili ekki öll viðskipti, heldur aðeins viðskipti tiltekinna aðila sem eru forrituð inn í hann.

Dómarinn stöðvaði Vífil við útskýringar hans og sagði hana eiga heima í málflutningi. Óskaði hann eftir því að Vífill spyrði Pétur út úr ákæruatriðunum.

Pétur fór yfir ýmis gögn, meðal annars úr herminum, auk annarra gagna. Kenndi þar ýmissa grasa á borð við upplýsingar um gengi hlutabréfa bankans, gengi krónunnar og gröf sem sýndu þróun hlutabréfa bankans. Ekki var um spurningar og svör að ræða heldur var Pétur að útskýra gögnin.

„Bara eins og ákæruvaldið“

Björn Þorvaldsson, saksóknari, gerði athugasemdir við þessa þróun mála, að ekki væri verið að spyrja spurninga, og óskaði eftir því að ákærði yrði spurður beint út úr.

„Það er bara verið að spyrja út í gögn málsins, alveg eins og ákæruvaldið gerði með gögnum úr herminum,“ sagði Vífill Harðarson, verjandi Péturs.

„Það er alveg ljóst að það er ekki verið að spyrja um ákæruatriðin en dómarinn treystir því að þetta leiði til þess að verjandinn muni svo spyrja út í ákæruatriðin. Er það ekki alveg öruggt?“ sagði Arngrímur Ísberg, dómsformaður, og beindi spurningunni til Vífils.

Vífill: „Já, bara eins og ákæruvaldið...“

Dómari: „Vert þú ekkert að bera þig saman við ákæruvaldið. Halt þú þig bara við þitt starf.“

Pétur hélt svo áfram að útskýra gögn sem sýna markaðinn, verðið í Kaupþingi og annað, áður en farið var að spyrja beint út í tiltekin ákæruatriði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×