Erlent

Tæpar tvær milljónir barna þurfa á aðstoð að halda

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Fjöldi fólks hefst nú við í neyðarskýlum.
Fjöldi fólks hefst nú við í neyðarskýlum. vísir/ap
Tæpar tvær milljónir barna í Nepal þurfa á lífsnauðsynlegri aðstoð að halda. Litla læknisaðstoð er þó að fá en rúmlega áttatíu prósent heilsugæslustöðva í héruðunum fimm sem verst eru leikin í landinu hafa skemmst verulega og fær fólk því víða læknisaðstoð úti undir berum himni. Þá er skortur á neysluhæfu vatni og óttast er að börn smitist af vatnsbornum sjúkdómum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá UNICEF en þar segir að mikil hætta sé á útbreiðslu sjúkdómsfaraldra. Því sé mikil þörf á bráðri læknisaðstoð. Starfsmenn samtakanna vinni nú dag og nótt við að útvega neyðarástandið og meta ástandið á skjálftasvæðinum.

„Líf ótal barna hefur verið tætt í sundur og þau þurfa mjög á lífsnauðsynlegum stuðningi að halda, svo sem hreinu vatni, skjóli og aðgengi að salernum,“ segir Tomoo Hozumi, yfirmaður UNICEF í Nepal, í tilkynningunni.

„Þegar skortur er á neysluhæfu vatni er mikil hætta á að börn smitist af vatnsbornum sjúkdómum. Margar fjölskyldur eiga í fullu fangi með að verjast náttúruöflunum og við búumst við að þörfin fyrir aðstoð eigi bara eftir að aukast á næstu dögum þegar betri upplýsingar berast frá einangraðri svæðum og eyðingaráhrif skjálftans koma betur í ljós.“

Hægt er að leggja samtökunum lið með því að senda smáskilaboðin UNICEF í númerið 1900 og gefa 1500 krónur til neyðaraðgerða vegna jarðskjálftans, eða leggja inn á söfnunarreikninginn: 701-26-102040 kt: 481203-2950.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×