Formúla 1

Lewis Hamilton kóngurinn í Kína

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Lewis Hamilto náði í 25 stig í Kína.
Lewis Hamilto náði í 25 stig í Kína. Vísir/Getty
Lewis Hamilton var afar sannfærandi í Mercedes bílnum í dag og það virtist enginn geta ógnað honum af neinni alvöru. Nico Rosberg á Mercedes varð annar og Sebastian Vettel á Ferrari varð þriðji.

Hamilton vann annað árið í röð í Kína og keppnin var afar spennandi. Á tímabili leit út fyrir að Rosberg gæti ógnað Hamilton. Svo virðist sem Hamilton hafi verið að hemja sig og spara dekkinn. Þegar hann þurfti þá gaf hann í og jók forskotið.

Kimi Raikkonen tókst að taka fram úr báðum Williams bílunum í ræsingunni. Eftir ræsinguna voru Mercedes fremstir með Ferrari fyrir aftan sig og Williams á eftir Ferrari.

Daniil Kvyat var sagt að hleypa liðsfélaga sínum, Daniel Ricciardo fram úr snemma í keppninnni enda á andstæðum keppnisáætlunum. Ricciardo var á mjúkum dekkjum en Kvyat á meðalhörðum. Kvyat var ekki alveg á þeim buxunum og gerði Ricciardo erfitt fyrir.

Eftir átta hringi var staðan orðin Mercedes, Ferrari, Williams, Lotus og Sauber. Líklega er það goggunarröð liðanna eins og staðan er í dag.

Vettel tók fyrsta þjónustuhléið af fremstu sex ökumönnunum og fékk mjúk dekk undir. Felipe Massa fylgdi í kjölfarið og svo kom Hamilton inn á þjónustusvæðið á næsta hring. Hamilton tók líka mjúk dekk. Rosberg tók svo líka þjónustuhlé og fékk mjúk dekk undir.

Fyrstu fjórir ökumenn keppninnar voru allir á sömu sjö sekúndunum á 25. hring. Hópurinn þéttist hægt og rólega og spennan byggðist upp. Það stefndi allt í gríðarlega spennandi seinni helming keppninnar.

Ferrari átti ekki svör við hraða Mercedes.Vísir/Getty
Hamilton fékk skilaboð um að auka hraðann talsvert eða þá að liðsfélagi hans yrði fyrri til á ný dekk og þá líklegur til að taka forystuna. Hugsanlega var Hamilton að hægja á sér til að þröngva Rosberg í vandræði í formi Ferrari bíls Vettel.

Vettel tók svo þjónustuhlé á 31. hring af 56. Mercedes brást strax við og Rosberg tók þjónustuhlé á næsta hring. Eftir hlé var Vettel kominn ansi nálægt Rosberg.

Max Verstappen var í miklum framúrakstursham í dag. Honum tókst að sýna og sanna að þrátt fyrir að hann sé yngstur frá upphafi þá á hann heima í Formúlu 1.

„Koma svo, burt með þennan McLaren hérna,“ sagði Raikkonen þegar hann var að hringa fyrrum liðsfélaga sinn Fernando Alonso. Finnanum hefur ekki þótt það leiðinlegt.

Jenson Button á McLaren og Maldonado á Lotus lentu í samstuði og framvængur á bíl Button varð fyrir skaða. Alonso á McLaren náði því 13. sætinu.

Maldonado hætti keppni skömmu seinna í þriðja skiptið í þremur keppnum á tímabilinu. Button fékk fimm sekúndna refsingu og var tímanum bætt við keppnistíma hans. Einnig fékk hann 2 punkta á skrá í eftirlitsskrá FIA.

Öryggisbíllinn kom út þegar vélin gaf sig hjá manni dagsins, Max Verstappen. Keppninni lauk undir stjórn öryggisbílsins.


Tengdar fréttir

Hamilton hraðastur í dag

Lewis Hamilton var hraðastur á báðum æfingum dagsins fyrir kínverska kappaksturinn sem fram fer á Sjanghæ brautinni um helgina.

Mercedes: Malasía mun ekki endurtaka sig

Mercedes liðið býst ekki við því að Malasíukappaksturinn endurtaki sig í Kína um komandi helgi. Þar vann Sebastian Vettel á Ferrari.

Bílskúrinn: Mercedes-menn malaðir í Malasíu

Eftir keppnina í Malasíu er ljóst að Ferrari ætlar ekki að gefa Mercedes neitt eftir. Farið verður yfir helstu atburði helgarinnar hér í Bílskúrnum, léttu hliðinni á Formúlu 1 hér á Vísi.

Hamilton á ráspól í Kína

Lewis Hamilton á Mercedes náði ráspól, Nico Rosberg varð annar og Sebastian Vettel varð þriðji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×