Erlent

Kennsl borin á fórnarlömbin fyrir vikulok

vísir/epa
Leitarmenn á vegum þýskra og franskra stjórnvalda vinna nú að því að safna persónulegum eigum þeirra sem létust þegar vél þýska flugfélagsins Germanwings var grandað í frönsku ölpunum í síðustu viku. Vonast er til að hægt verði að afhenda fjölskyldum fórnarlambanna munina fyrir vikulok.

Aðstæður hafa verið slæmar á svæðinu sem hefur gert leitarmönnum afar erfitt fyrir. Í gær tókst þó loks að fjarlægja jarðneskar leifar allra þeirra er létust í síðustu viku og borin verða kennsl á þær í vikunni.

Þá stendur leit enn yfir að öðrum tveggja flugrita vélarinnar. Sá er eins konar ferðriti sem skráir flughæð og aðrar upplýsingar. Hinn geymir hljóðupptökur en hann leiddi meðal annars í ljós að aðstoðarflugmaður vélarinnar, Andreas Lubitz, hefði brotlent vélinni viljandi.

Lufthansa, móðurfélag Germanwings, sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þess efnis að Lubitz hefði greint félaginu frá veikindum sínum árið 2009. Hann hefði á þeim tíma verið í meðferð hjá geðlækni vegna alvarlegs þunglyndis og því tekið sér nokkurra mánaða frí frá flugnámi á vegum fyrirtækisins.

Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa sent þýskum saksóknurum gögnin sem Lubitz framvísaði. Málið er rannsakað sem fjöldamorð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×