Enski boltinn

Vill sjá Simeone eða Ancelotti taka við af Pellegrini

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Pellegrini tekur hér Yaya Toure af velli í gær.
Manuel Pellegrini tekur hér Yaya Toure af velli í gær. Vísir/Getty
Robbie Savage, knattspyrnuspekingur BBC, er viss um að Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, verði rekinn eftir tímabilið en City-liðið datt út úr sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær.

Manchester City er sex stigum á eftir toppliði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni og töpuðu samanlagt 3-1 á móti Barcelona þar sem markvörðurinn Joe Hart hreinlega bjargaði liðinu frá miklu verri útreið í báðum leikjunum.

„Ég held að það sé kominn tími á Pellegrini. Það er síðan önnur spurning hvort að Diego Simeone sé tilbúinn að fara frá Atletico Madrid eða hvort Carlo Ancelotti geti hugsað sér að fara frá Real Madrid? Það eru stjórar sem ég vildi sjá hjá Manchester City," sagði Robbie Savage á BBC í gærkvöldi.

Manchester varð enskur meistari og vann enska deildarbikarinn á fyrsta ári Manuel Pellegrini með liðið en það stefnir allt í titlalaust ár í ár.

„Ég tel að City þurfi að gera róttækar breytingar," sagði Savage og bætti við:  „Vincent Kompany hefur verið besti varnarmaðurinn undanfarin þrjú ár en hann þarf traustan félaga í miðri vörninni,“ sagði Savage sem telur að belgíski miðvörðurinn sé farinn að finna fyrir þessu.

„Kompany þarf að taka til hjá sér því hann hefur ekki verið að spila vel að undanförnu," sagði Savage.

„Yaya Toure hefur líka verið tekinn af velli leik eftir leik og það er óvissa í kringum framtíð hans," sagði Savage sem eins og fleiri býst við stórri tiltekt hjá City í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×