Erlent

Grikkir búnir að skila tillögum sínum

Atli Ísleifsson skrifar
Að sögn AFP hafa hlutabréf í Grikklandi hækkað um sjö prósent í morgun.
Að sögn AFP hafa hlutabréf í Grikklandi hækkað um sjö prósent í morgun. Vísir/AFP
Talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir grísk stjórnvöld hafa skilað umbótatillögum sínum til lánadrottna sinna. ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfa að samþykkja tillögurnar til að Grikkir fái fjögurra mánaða framlengingu á lánum sínum.

Að sögn AFP hafa hlutabréf í Grikklandi hækkað um sjö prósent í morgun.

Tillögur Grikkja snúa meðal annars áætlun um hvernig skuli takast á við skattaundanskot og eldsneytis- og tóbakssmygl.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, reynir nú að friða kröfur lánadrottna Grikkja og kjósendur sinna sem krefjast þess að stjórnin standi við gefin kosningaloforð.

Í frétt BBC kemur fram að framkvæmdastjórn ESB álíti tillögurnar nægilega ítarlegar til að vera grundvöllur frekari viðræðna til að sátt náist um mögulega framlengingu.

Talið er að helsta deilumálið kunni að snúa að kröfum Grikkja að stöðva nauðungasölur á heimilum og að veita fría læknisaðstoð og rafmagn til þeirra sem geta ekki borgað. Evruríkin vilja að skattar skuli áfram hækka og lífeyrisgreiðslur lækka.


Tengdar fréttir

Áætlun Grikkja að vænta í dag

Gríska ríkisstjórnin hefur frestað umbótaáætlunum sínum til dagsins í dag en til stóð að áætlunin yrði send lánardrottnum Grikkja í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×