Fótbolti

Ísland niður um fjögur sæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Ísland er í 37. sæti styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, sem gefinn var út í morgun og féll niður um fjögur sæti.

Íslenska liðið spilaði tvo leiki frá útgáfu síðasta lista - æfingaleiki gegn Kanada í Flórída. Liðið var að mestu skipað leikmönnum sem spila á Íslandi og Norðurlöndunum en það vann fyrri leikinn, 2-1, og gerði svo 1-1 jafntefli í þeim síðari.

Ísland missir meðal annars Gana og Grænhöfðaeyjar upp fyrir sig en báðar þjóðir stóðu sig vel á nýafstöðnu Afríkumóti í knattspyrnu. Fílabeinsströndin, sem vann Gana í úrslitaleiknum, er í 20. sæti listans.

Besti árangur Íslands á listanum er 28. sæti en liðið sat þar í október í fyrra. Þó eru ekki nema tæp þrjú ár síðan að íslenska liðið náði sínum versta árangri og féll niður í 131. sæti.

Engin breyting er á meðal sjö efstu þjóðanna og eru Þýskaland, Argentína og Kólumbía í efstu þremur sætunum. Belgía og Holland koma næst, svo Brasilía, Portúgal, Frakkland, Úrúgvæ og Spánn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×