Innlent

Hin grunaða ekki komið við sögu lögreglu áður

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hin grunaða í fylgd lögreglumanna við Héraðsdóm Reykjaness í dag. Hún var úrskurðuð í viku langt gæsluvarðhald til 23. febrúar.
Hin grunaða í fylgd lögreglumanna við Héraðsdóm Reykjaness í dag. Hún var úrskurðuð í viku langt gæsluvarðhald til 23. febrúar. 365/anton/Stefán

Lögreglunni barst tilkynning um mannslát í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði í gegnum neyðarlínuna, 112, rétt fyrir klukkan þrjú í gærdag. 

Þegar lögreglan kom á vettvang stuttu síðar voru þar fyrir hin grunaða, sem er pólskur ríkisborgari fædd 1959 og hinn látni, sambýlismaður hennar, einnig pólskur ríkisborgari fæddur 1974. Maðurinn var með eitt stungusár vinstra megin á brjóstholi og var úrskurðaður látinn á vettvangi. 

Ekki hafa fengist upplýsingar um hvers konar eggvopni var beitt við verknaðinn, hnífi, skærum eða öðru. Að sögn Kristjáns Inga Kristjánssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem stýrir rannsókninni, hefur lögreglan ekki þurft að hafa afskipti af þessu fólki áður. Ekki liggur fyrir hvort þau hjúin hafi verið í óreglu en rannsókn málsins er á frumstigi og tæknideild lögreglunnar er enn við rannsóknir á vettvangi.

Kristján Ingi vildi ekki gefa upp hvort hin grunaða, sem var handtekin á vettvangi, hefði verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna á verknaðarstund en tekin voru blóðsýni úr henni í gær.

Konan var yfirheyrð í gærkvöldi á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Þessar myndir (sjá myndskeið) voru teknar laust fyrir klukkan þrjú í dag þegar hún var færð fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness. Hún var úrskurðuð í viku langt gæsluvarðhald til 23. febrúar.

Konan gæti átt yfir höfði sér allt að sextán ára fangelsi verði hún ákærð og fundin sek fyrir manndráp af ásetningi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×