Fótbolti

Vítaspyrna Balotelli tryggði sigurinn | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Balotelli skorar úr vítaspyrnunni.
Balotelli skorar úr vítaspyrnunni. vísir/getty
Mario Balotelli var hetja Liverpool gegn Besiktas í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA í kvöld.

Balotelli, sem kom inn á sem varamðaur, skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu sem hinn ungi Jordan Ibe vann af miklu harðfylgi.

Ítalski sóknarmaðurinn var fljótur að bregðast við eftir að vítaspyrnan var dæmd. Hann hirti boltann og stillti sér við punktinn, þrátt fyrir að fyrirliðinn Jordan Henderson virtist eitthvað hafa að athuga við það.

Daniel Sturridge blandaði sér einnig í málin og virtist vilja taka spyrnuna sjálfur. En Balotelli fékk sínu framgengt og skoraði af öryggi. Hann tryggði þar með sínum mönnum mikilvægan sigur fyrir síðari viðureign liðanna í næstu viku.

Henderson lagði upp dauðafæri fyrir Adam Lallana í leiknum en sá síðarnefndi fór illa að ráði sínu og skaut yfir fyrir opnu marki. Demba Ba fékk einnig gott færi fyrir gestina í fyrri hálfleik en Simon Mignolet varði vel frá honum.

Mario Balotelli skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 85. mínútu:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×