Viðskipti innlent

Sveitarstjórn auglýsir eftir kaupmanni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Verslunin Hólakaup á Reykhólum. Henni var lokað á gamlársdag.
Verslunin Hólakaup á Reykhólum. Henni var lokað á gamlársdag. Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur samþykkt að auglýsa eftir aðila sem er tilbúinn að taka að sér að reka matvöruverslun á Reykhólum. Þar ríkir ófremdarástand eftir að einu verslun byggðarinnar, Hólakaupum, var lokað um áramótin, en samkvæmt Reykhólavefnum, sem greinir frá málinu, eru næstu búðir á Hólmavík, 58 kílómetra í burtu, og í Búðardal, en þangað eru 75 kílómetrar.



Í frétt Vísis á nýársdag kom fram að eigendur Hólakaupa, þau Eyvindur Magnússon og Ólafía Sigurvinsdóttir, hafi hætt verslunarrekstrinum vegna mikillar bindingar fyrir fjölskylduna og vinnuálags en í staðinn ákváðu þau að snúa sér að ferðaþjónustu. Haft er eftir Eyvindi að hagnaður hafi verið af rekstrinum öll fimm árin sem þau hafi rekið búðina og hann telji sannarlega grundvöll til að reka verslun á Reykhólum.

Eyvindur Magnússon og Ólafía Sigurvinsdóttir í viðtali í þættinum "Um land allt" í fyrra.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Verslunarhúsið er í eigu Reykhólahrepps. Jafnframt hefur sveitarstjórn samþykkt að ganga til samninga við eigendur Hólakaupa um kaup á tækjum og búnaði sem nauðsynlegur er til áframhaldandi reksturs verslunar á Reykhólum. 

Þeir sem eru áhugasamir um að taka að sér kaupmannsstarfið á Reykhólum geta kynnt sér samfélagið þar með því að horfa hér á þáttinn „Um land allt“, en þar var verslunin meðal annars heimsótt og fjallað um óvenju mikla barnafjölgun. Á Reykhólum búa um 130 manns og í Reykhólahreppi alls um 270 manns.

Dæmi eru um verslun í mun fámennari byggð, eins og á Bakkafirði, þar sem um 80 manns búa, en Stöð 2 fjallaði um þá verslun, Mónakó Supermarket, fyrir fjórum árum.


Tengdar fréttir

Íbúar Reykhóla vakna á nýju ári við enga verslun

Einu matvöruversluninni á Reykhólum, Hólakaupum, var lokað á gamlársdag. Eigendurnir, þau Eyvindur Magnússon og Ólafía Sigurvinsdóttir, ákváðu að hætta rekstrinum vegna mikillar bindingar og vinnuálags fyrir fjölskylduna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×